152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig minnir að það hafi verið Stalín — það má þó vera að það sé ekki rétt munað hjá mér — sem hafi orðað þetta á þann veg að það skipti kannski ekki alveg öllu máli hvernig kjósendur kysu heldur skipti meira máli hvernig talið væri upp úr kössunum. Mér varð hugsað til þessa þegar verið var að telja upp úr kössunum í Norðvesturkjördæmi við síðustu kosningar og þegar sú óþægilega niðurstaða varð ljós að talningin yrði látin standa þó að uppi væri vafi um að þetta væri allt saman rétt. Þar fannst mér ásýnd lýðræðisins hér á landi bíða hnekki. Það er svolítið það sem þeir sem vilja draga úr lýðræðinu, og vilja hafa hlutina eftir sínu höfði, vilja segja: Þetta er ekki svo mikilvægt. Það er hægt að hafa áhrif á það hvernig talið er upp úr kössunum o.s.frv. Við skulum gera lítið úr lýðræðinu, það er líka svo langdregið, seinlegt, erfitt og leiðinlegt. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi fengið þessa óþægindatilfinningu þegar kosningaklúðrið varð í Norðvesturkjördæmi, að við stæðum ekki á styrkum stoðum þegar við hugum að lýðræðinu hér á landi.