152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Mig langar fyrst að rifja upp hversu brýnt var að endurskoða kosningalöggjöf á Íslandi þegar við gerðum það í fyrra. Það var búið að benda á það t.d. í úttektum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, trekk í trekk, að ýmsir ágallar væru á framkvæmd kosninga sem þyrfti að taka á. Um allt of langan tíma hafði ekki tekist að ná samstöðu um þær breytingar hér í þingsal vegna þess að í ljós kom að það er dálítið erfitt að breyta kosningalögum af því að stjórnmálafólk hefur sterkar skoðanir á því, þannig að frumvörp þess efnis ýmist komu ekki fram eða döguðu uppi þangað til það tókst á síðasta vetri.

Í grunninn voru nokkur efnisatriði sem þurfti að bæta í löggjöfina en stóra verkefnið var kannski að sameina fjóra lagabálka sem tengdust ólíkum þáttum kosningaframkvæmdar, eftir því hvort þær væru til Alþingis, forseta, sveitarstjórna eða um væri að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu, og þetta var gríðarstórt verkefni.

Það var ekki fyrr en 15. desember 2020 sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi forseti Alþingis, náði að mæla fyrir frumvarpinu í 1. umr. Á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir gildistöku 1. maí 2021 og bjartsýni flutningsmanns var svo mikil að ég held að hann hafi í hjarta sínu jafnvel borið von um að það næðist. Raunin varð hins vegar önnur. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hélt 22 nefndarfundi um málið, fékk alveg gríðarlega umfangsmiklar og margar umsagnir og þurfti að breyta mjög miklu frá upphaflegu frumvarpi þannig að það var ekki fyrr en 21. maí, 20 dögum eftir að gildistaka hafði upphaflega verið ráðgerð, sem komin voru drög að breytingartillögum í nefndinni sem tveimur vikum seinna litu dagsins ljós þegar nefndin afgreiddi átta síðna breytingartillöguskjal með 65 töluliðum. Fyrir óinnvígða þá er það mjög mikið.

En af hverju þurfti nefndin að breyta svona miklu? Það er nefnilega ágætt að rifja það upp vegna þess að það eru ólík sjónarmið sem togast á í kosningalögum. Annars vegar er það þessi fallega hugsun að hvert einasta atkvæði skipti máli og þess vegna búum við til kerfi sem snýst um að hlusta á hvern einasta kjósanda. Þó að við séum nærri 300.000 sem höfum kosningarrétt þá skiptir hvert eitt og einasta okkar máli. Þess vegna þykir mér alltaf sérstaklega vænt um bráðabirgðaákvæði I í lögunum um að það skuli taka á kjörskrá það fólk sem uppfyllir skilyrði um réttindi danskra ríkisborgara á Íslandi, nr. 18/1944. Þetta er fólk sem bjó á Íslandi þegar hér var stofnað lýðveldi og er enn með kosningarrétt út af þessu ákvæði sem byggir á sambandslögunum frá 1918. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá þegar Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir frumvarpinu voru — þetta er ekki einu sinni þegar hann mælti fyrir því, árið 2019, þrír kjósendur eftir í landinu sem uppfylltu þetta ákvæði. Við erum með sérstakt ákvæði í lögum fyrir þau þrjú vegna þess að þessi þrjú atkvæði skipta nákvæmlega jafn miklu máli og atkvæði allra annarra kjósenda.

Hitt sjónarmiðið sem togaðist á og var allt of oft að draga úr þessu fallega elementi kosningalaganna var að það ætti að fara yfir — þetta stóð í skipunarbréfi starfshópsins sem vann upphaflega tillögu að breytingum á lögunum — gildandi lög um kosningar með hagkvæmni og skilvirkni að leiðarljósi. Ég held að kosningar geti ekki verið hagkvæmar eða skilvirkar. Þær kosta dálítinn pening. Þær eru dálítið flóknar. Þær eru mannaflsfrekar, það er alls konar vesen sem þarf að eiga sér stað til þess að við getum náð vilja hvers einasta kjósanda fram og til þess að hver einasti kjósandi treysti öllum skrefum ferlisins.

Mig langar að nefna örfá dæmi um ágreiningsefni í upphaflegu frumvarpi sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók á og breytti. Í fyrsta lagi var lagt til að leggja niður yfirkjörstjórnir kjördæmanna og fela landskjörstjórn alla helstu framkvæmd við alþingiskosningar. Þetta þótti fólki færa framkvæmdina of langt frá héraði. Það myndi líka bara koma niður á framkvæmdinni og kerfinu sem fólk treysti. Þessu var snúið við, yfirkjörstjórnirnar komu inn aftur. Það kallar á gífurlega flóknar breytingar af því að þetta snerti annað hvert ákvæði í frumvarpinu.

Í upphaflegu frumvarpi var líka lagt til að slit kjörfundar yrðu færð fram um klukkutíma, að fólk gæti ekki lengur kosið til klukkan tíu að kvöldi heldur þyrfti að klára sig af fyrir klukkan níu. Ástæðan var ekki ljós en þetta var miklu skilvirkara af því að eins og sumir umsagnaraðilar bentu á væru ekkert ofboðslega margir kjósendur að mæta á þessum tíma en meiri hluti nefndarinnar sagði: Nógu margir til að við höldum þessu óbreyttu, við höfum kjörfund opinn til klukkan tíu þótt það þýði kannski smáóhagræði í sumum sveitarfélögum og þó að það þýði að fréttaþulirnir í beinni útsendingu á RÚV fái fyrstu tölur ekki jafn fljótt og þeir kannski vildu, af því að það skiptir engu máli. Við sáum það ágætlega í kosningunum í haust að kjördæmið sem skilaði fyrstu tölum langfyrst var líka kjördæmið sem var síðan með allt niður um sig þegar kom að talningunni. Norðvesturkjördæmi kostaði okkur ómældan tíma vegna þess að það vildi vera skilvirkast í því að koma tölum frá sér.

Svo var tekist á um atriði eins og bann við að kjósa aftur ef kjósandi hefði greitt atkvæði utan kjörfundar. Enginn skildi af hverju það væri. Jú, þá bara ákvað fólkið sem samdi frumvarpið að það væri einhvern veginn of mikið vesen að kjósandi gæti greitt atkvæði utan kjörfundar eins oft og honum sýndist og gæti samt mætt á kjörfund, greitt atkvæði þar og þá væri það bara síðasta atkvæðið sem gilti. Við getum skipt um skoðun. Það er lýðræðislegur réttur. Við getum, utan kjörfundar, greitt atkvæði flokki sem eitthvert hneykslismál kemur svo upp í kringum í millitíðinni og okkur þætti gengið á lýðræðislegan rétt okkar ef við gætum ekki hent því atkvæði í tætarann og bara mætt á kjörstað og greitt atkvæði þar. Þessu sneri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd við.

Það átti að breyta kosningaframkvæmdinni þannig að kjósandi átti að fá kjörseðil, fara inn í kjörklefa, eins og við þekkjum, og merkja þar við, svo átti hann að fara með seðilinn samanbrotinn til fulltrúa kjörstjórnar sem myndi stimpla með einhverjum embættisstimpli og síðan mætti hann fara ofan í kjörkassa. Við skildum aldrei af hverju þetta væri. Þetta myndi þýða að eftir að þú merktir við þá væri einhver þér óviðkomandi sem myndi handleika seðilinn áður en hann færi ofan í kassann. Það myndi mögulega þýða að ótal atkvæði myndu ógildast vegna þess að einhver kjósandi væri bara of fljótur á sér, væri vanur því eftir áratugareynslu að fara beint úr klefanum og stinga seðlinum ofan í kassann; þá væri það ógilt atkvæði. Þetta var bara della sem nefndin henti út.

Síðan átti að þrengja rétt fólks til að halda kosningarrétti þótt það hefði flutt af landi brott. Það átti bara að setja stíf mörk við ákveðinn árafjölda utan landsteinanna og þar með væri kosningarréttur viðkomandi úti í stað þess að hægt væri að kæra sig inn á kjörskrá eins og hefur verið lengi. Það var sett inn aftur vegna þess að jú, jú, það er vesen fyrir kerfið að þetta fólk sé að kæra sig inn á kjörskrá og bæta sér við en það er vesen sem er mikilvægur hluti af því kerfi sem við byggjum traust til kosninga á.

Þetta er bara brotabrot af þeim umfangsmiklu breytingum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerði til að gera málið betra. Það tókst vel þótt við höfum rekið okkur á það núna að það hafi ekki tekist nógu vel vegna þess að tíminn, þegar hér var komið sögu, var bara of skammur. 8. júní var málið afgreitt úr nefnd með þessum umfangsmiklu breytingartillögum. Aðfaranótt 12. júní fór fram 2. umr. um málið. Ef við gætum farið í tímavél þá hefðum við kannski gefið nokkra daga eftir 12. júní til að leyfa þessum drögum að líta dagsins ljós, vera rýnd aðeins af sérfræðingum og hagsmunaaðilum þannig að mögulega væri hægt að gera úrbætur fyrir 3. umr. Það mátti ekki vegna þess að við þurftum að komast í sumarfríið okkar þannig að aðfaranótt 13. júní var málið afgreitt endanlega við 3. umr.

Þetta eru ekki góð vinnubrögð, herra forseti. Fyrir utan hvað þetta eru umfangsmiklar breytingar þá eru þær líka, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, mjög óaðgengilegar. Það er ekki hægt að lesa 65 töluliða breytingaskjal og bera það saman við upphaflega frumvarpið og fá eitthvert sens í það sem er að gerast. Það þarf alveg ofboðslega sérfræðikunnáttu til að lesa sig í gegnum það og sjá hvað má betur fara. Nú erum við í annað sinn eða þriðja í raun að framkvæma slíkar breytingar og sem betur fer, vil ég segja, er fólk viljugt til þess svo að lögin verði alltaf betri og betri.

En mig langar að skilja eftir þessa hugmynd sem við höfum rætt hér nokkur í andsvörum, hvort þingið þurfi að setja í gang eitthvert formlegt ferli innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða einhverrar sérstakrar nefndar um kosningalögin, að fara yfir þessa heildarendurskoðun, bara í góðu tómi, sjá hvort kannski þurfi að gera einhverjar umfangsmeiri breytingar til þess að stoppa í öll götin sem mögulega geti verið þarna. Sú góða vinna sem átti sér stað í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var augljóslega unnin í of mikilli tímaþröng vegna þess að fólk vildi ná þessu máli á endapunkt, loksins, það var langþráður endapunktur að ná því, en það kapp leiddi mögulega til þess að við vorum að klára það á of skömmum tíma.

Þetta var nú það sem ég vildi segja um málið að þessu sinni, herra forseti.