152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[19:10]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Það eru margir annmarkar á þessu lagafrumvarpi og kosningalögunum í heild sinni. Ég kom vissulega inn á það í gær að það væri athyglisvert og jafnvel ámælisvert að breyta lögum rétt tveimur mánuðum fyrir kosningar og ég þarf svo sem ekki að fara dýpra ofan í það. Ég vil líka velta því upp hvers vegna það er bara verið að breyta dagsetningum en ekki helstu annmörkum löggjafarinnar. Til að mynda er undir ráðherra komið að útfæra meginreglurnar um framkvæmd kosninga í reglugerð og við eigum von á þó nokkrum reglugerðum á næstu vikum og mánuðum til að útfæra þetta betur og hvernig það eigi að framkvæma þessar kosningar.

Forseti. Mér þykir ekki mjög eðlilegt að framkvæmdarvaldið eða ráðherra hafi jafn mikla aðkomu að framkvæmd kosninga heldur eigi framkvæmd kosninga að heyra undir Alþingi og þau lög sem Alþingi hefur samþykkt. Ég hélt að það væri bara einhver meginregla sem við þyrftum að virða og ekki virða að vettugi. Reykjavíkurborg og yfirkjörstjórn Reykjavíkur gerðu alvarlegar og mjög marktækar athugasemdir við þetta frumvarp. Það er greinilegt að það hefur ekki verið tekið mið af því. Meðal annars var bent á að fólk sem býr erlendis missir kosningarrétt sinn en fær hann vissulega til baka í sveitarstjórnarkosningunum þannig að fólk spyr sig kannski: Af hverju skiptir það máli að þetta fólk, sem er búsett erlendis, sé með kosningarrétt? En jú, það eru sameiningar sveitarfélaga í gangi núna og hafa verið í gangi í þó nokkrum sveitarfélögum á grundvelli laga sem hafa fallið á brott nema nokkur bráðabirgðaákvæðið sem verið er að byggja þessar sameiningar á. Það er náttúrlega galin framkvæmd, því miður. Ég vil taka undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur um að það er sérkennilegt að enn þá sé verið að laga annmarka á þessu lagafrumvarpi eftir heildarendurskoðun og þetta verður örugglega ekki síðasta lagfæringin. Við hér á Alþingi þurfum örugglega að vinna í þessu frumvarpi áfram í nokkra mánuði í viðbót af því að það eru mjög mörg lagaákvæði sem hafa greinilega ekki verið hugsuð til enda. En svo vil ég aðeins minna á að hér ríkir þingræði en ekki ráðherraræði og þessi kosningalög eru til marks um að við búum því miður við ráðherraræði enda heyra mjög mörg af þessum lagaákvæðum og um framkvæmd kosninganna undir ráðherra sem er náttúrlega ekki eðlilegt eins og ég kom inn á áðan.

Forseti. Ég er laganemi og ég fer ekkert rosalega leynt með það en í laganáminu er talað mjög mikið um vilja löggjafans. Það er rýnt í lögskýringargögn og skoðaðar eru greinargerðir og framsöguræður nefndarmanna og þingmanna og fullt af öðrum hlutum til að leiða vilja löggjafans í ljós. Ég er bara að hugsa hvað gerist eftir tvo til þrjú ár þegar þessi lög hafa verið löguð og fyrsta árs nemendur í lagadeild eru að læra stjórnskipunarrétt. Það verður bara rýnt í einhver lögskýringargögn sem eru varla til staðar af því að enginn á Alþingi gerði athugasemd við frumvarpið þegar það var afgreitt á síðasta kjörtímabili og samþykkt sem lög. Það þykir mér miður út af því að þetta er náttúrlega sögulegt. Það átti sér stað heildarendurskoðun kosningalaga og hent í einn heildstæðan lagabálk sem sveitarstjórnarkosningar og kosningar til Alþingis falla undir. En hér erum við með lagabálk sem greinilega virkar ekki, var greinilega ekki hugsaður til enda og við hér á Alþingi berum náttúrlega líka ábyrgð á þessu. Það var ekki bara stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í fyrra, við hér, löggjafarvaldið, þurfum að rýna í gögnin og skoða frumvarpið áður en það er samþykkt. Ég leyfi mér að segja að mér líður eins og löggjafarvaldið hafi brugðist hlutverki sínu með því að átta sig ekki á þessum alvarlegu annmörkum eða hafi bara ekki tekið mið af þeim umsögnum sem bárust, sem er náttúrlega leiðinlegt og nú þarf að eyða örugglega heilu þingi í það að reyna að laga þennan blessaða lagabálk. Það eru rúmlega 60 dagar í kosningar. Mér finnst þetta ekki alveg í samræmi við vinnubrögð þingmanna og nefndarmanna.

Það var einnig gerð athugasemd um umboðsmenn en ef ég skil rétt þá á að vera einn umboðsmaður fyrir hvert framboð í Reykjavík. Í Reykjavík eru u.þ.b. 16 framboð og ég held að við öll sem sitjum hér í dag höfum farið inn í kjörklefa og við sjáum hversu lítið herbergi þetta er. Ég veit ekki hvort búist er við því að það séu 16 umboðsmenn ásamt kjósendum og kjörstjórninni í þessu litla herbergi. Það má endilega endurskoða það líka.

Það er margt annað sem má setja út á en það er vissulega ekki verið að laga það hér í dag, því miður. Ég velti því fyrir mér hvort þessi lög hafi verið skoðuð nógu vel þegar þau voru samþykkt í fyrra, sem er leiðinlegt og vinnubrögð Alþingis eiga ekki að vera á þennan hátt.

Forseti. Ég skoðaði þetta frumvarp þegar það var lagt fyrst fram og tók eftir nokkrum hlutum sem komu þar fram sem ég vonaðist til þess að yrðu lagaðir í nefnd eða jafnvel að það myndi einhver lagfæring vera gerð eftir að það var samþykkt, en svo var ekki. Það kemur fram a.m.k. þrisvar sinnum í kosningalögunum, með leyfi forseta: „Að fengnum tillögum landskjörstjórnar skal ráðherra í reglugerð kveða nánar á um“ o.s.frv., setja nánari ákvæði um hitt og þetta. Það er náttúrlega bara skrýtið að ráðherra setji fullt af reglugerðum um nánari framkvæmd, nánari ákvæði um hitt og þetta. Nú á yfirkjörstjórn og umboðsmenn og fólk sem sér um framkvæmd kosninga von á a.m.k. 22 reglugerðum frá ráðherra og það eru, eins og ég sagði, rúmlega 60 dagar í kosningar. Hvernig á þetta fólk að leggja allar þessar reglugerðir á minnið ásamt því að verið er að breyta og bæta lögin fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar? Hvernig getum við tryggt það að þessar kosningar fari fram með réttum hætti ef lögin eru ekki nógu skýr, ef það eru 22 reglugerðir sem taka þarf mið af? Við sáum það núna í september að það er rosalega mikilvægt að það leiki ekki vafi um niðurstöðu kosninga eða framkvæmd kosninga og ég veit bara ekki hvernig við getum tryggt að það leiki enginn vafi á því. Við erum núna að reyna að tryggja þetta en það þarf að vanda virkilega vel til verka. Ég hvet þingheim til að gera það og rýna betur í frumvarpið og gera okkur laganema stolt sem þurfum að skoða lögskýringargögnin og þurfum að vísa í þessa hv. þingmenn sem taka til máls hér í dag og tóku til máls á síðasta kjörtímabili þegar verið var að samþykkja þetta frumvarp. Ég bíð persónulega alla vega mjög spennt eftir frekari breytingum og þróun, af því að eins og ég kom inn á þá er breyting á dagsetningum vissulega ekki eina breytingin sem þarf að eiga sér stað. Lög um kosningar og allt sem viðkemur kosningum er rosalega mikilvægur hluti af lýðræði hér á Íslandi og við þurfum að virða lýðræðið þannig að samfélag okkar virki. Við búum í réttarríki, eins og við segjum oft. Ég bíð virkilega spennt eftir frekar lagfæringum og ég veit ekki hvort ég verð hér á þingi þegar næsta breytingartillaga kemur fram en ég mun styðja hana, að sjálfsögðu, og ég hvet stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að halda áfram að skoða þetta frumvarp og taka mið af þeim umsögnum sem bárust og reyna að laga allt sem bent er á. Það er náttúrlega fagfólk sem skrifar þessar umsagnir og það hefur unnið við kosningar og að framkvæmd kosninga og veit hvað vantar upp á og hvernig best er að beita sér í þessum málum. Fleira var það ekki, forseti. Það eru spennandi tímar fram undan.