152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

samkomulag við Rauða krossinn um þjónustu við flóttamenn.

[11:16]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Þegar flóttafólk sækir hér um alþjóðlega vernd á það rétt samkvæmt lögum á því að þeim sé skipaður talsmaður. Talsmaður samkvæmt lögunum talar máli umsækjanda og gætir hagsmuna hans við meðferð málsins gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Frá árinu 2014 hafa lögfræðingar á vegum Rauða krossins á Íslandi sinnt þessu hlutverki að megninu til. Fyrir stuttu tók hæstv. dómsmálaráðherra þá ákvörðun á sérdeilis ógagnsæjan hátt og ég ætla að leyfa mér að segja af ákveðnu virðingarleysi við Rauða krossinn og við umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi, að framlengja ekki samkomulagið við Rauða krossinn um þessi þjónustu. Það fyrirkomulag sem nú er komið í ljós að mun taka við er þannig að Útlendingastofnun skipar fólki talsmann úr hópi lögmanna utan úr bæ. Á heimasíðu Útlendingastofnunar stendur síðan, með leyfi forseta:

„Faglegt skilamat. Svo tryggja megi gæði þjónustunnar verður virkt faglegt skilamat með kaupunum þar sem Útlendingastofnun leggur mat á frammistöðu talsmanna. Við mat á frammistöðu talsmanns verður meðal annars litið til þess hvort starfshættir talsmanns hafi stuðlað að skilvirkri málsmeðferð og sanngjarnri afgreiðslu, hvort viðtöl og gagnaafhending hafi einkennst af fagmennsku og samviskusemi og hvort talsmaður hafi brugðist vel við ef fram komu ábendingar um annmarka sem bæta þyrfti úr.“

Í ljósi þessa langar mig að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann sjái ekki augljósan hagsmunaárekstur við þetta faglega skilamat, hvort hann sé þeirrar skoðunar að þetta standist lög miðað við hlutverk talsmanns. En fyrst og fremst vil ég spyrja ég hæstv. dómsmálaráðherra: Var þetta „faglega skilamat“ samið með vitund og vilja hæstv. dómsmálaráðherra?