152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

samkomulag við Rauða krossinn um þjónustu við flóttamenn.

[11:21]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið þó að hann hafi ekki svarað einni spurningu minni sem var sú hvort hann sé þeirrar skoðunar að þessi viðmið standist lög í ljósi hlutverks talsmanns umsækjenda um alþjóðlega vernd, þar sem þarna er það Útlendingastofnun sem hefur eftirlit með því hvort talsmenn séu að standa sig, hvort stofnuninni finnist viðkomandi vera að vinna samviskusamlega. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að stofnunin líti svo á að hún geti hætt að skipa tiltekna lögmenn ef þeir haga sér ekki gagnvart stofnuninni.

Síðari spurningin sem mig langaði að beina til hæstv. dómsmálaráðherra er hvort hann myndi telja — ef við berum þetta saman við önnur mál þar sem stjórnvöld skipa fólki talsmann eða verjanda, svo sem í sakamálum — það eðlilegt að hægt væri að taka lögmenn af lista lögreglunnar yfir hugsanlega lögmenn, hugsanlega verjendur í sakamálum, ef þeir færu ekki að fyrirmælum lögreglu og höguðu sér gagnvart henni.