152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og langar að nefna bara örfá atriði sem hann kom inn á. Fyrst varðandi stjórnmálasamband við Rússland og veru sendiherrans hér, þá er það atriði sem ég fæ líklega flestar spurningar um, þar sem fólk spyr: Hvernig má það vera að hann sé einhvern veginn í okkar umboði og meðan á þessu gengur? Ég skil það mjög vel og sérstaklega þegar sendiherrann mætir í fjölmiðla með málflutninginn sem þar hefur verið. En stjórnmálasamband og diplómatískar leiðir eru ekki bara mikilvægar á friðartímum, þær eru líka mjög mikilvægar á stríðstímum. Við verðum að vinna að því og vona og meina það að við viljum bæði koma í veg fyrir átök með þeim diplómatískum leiðum, en þegar það hefur greinilega ekki tekist, eins og í þessu tilfelli og rússnesk stjórnvöld hafa valið að fara í stríð, þá þarf líka að halda í diplómatískar leiðir til að stöðva þau átök eða hafa áhrif á viðræður og viðhalda talsambandi, af því að ekki getum við haldið svona áfram í þeim veruleika sem við erum í núna. Við getum ekki gefist upp á því að diplómatískar leiðir skili árangri og sömuleiðis hefur það áhrif á okkar fólk, okkar getu til að vera Rússlands megin, bæði gagnvart okkar borgurum sem þar búa og til að tryggja að það sé samband þar á milli.

Ég átti mjög góðan fund í gær þar sem Þroskahjálp, Öryrkjabandalagið, Tabú og Átak komu. Nú á ég svo fáar sekúndur eftir að ég held áfram í næstu ræðu, en af því ég veit að hv. þingmaður berst hvað harðast fyrir þeim hópi þá var bæði átakanlegt að hlusta en líka mjög mikilvægt og gott fyrir mig að heyra það beint. Mér var afhent áskorun um að við skyldum huga sérstaklega að þessum hópi, ekki bara þegar kemur að því að taka á móti þeim hópum sem hingað koma mögulega, heldur ekki síst að senda fjárhagslega aðstoð inn í Úkraínu þar sem stór hluti þessa fólks getur einfaldlega ekki farið þaðan.