152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að orð hv. þingmanns um þessa upplifun af veru sendiherrans hér og þegar hann mætir í viðtöl með þann málflutning sem hann hefur viðhaft endurspegli upplifun mjög margra sem hér búa. Það er ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir að sá málflutningur sé enn að birtast einhvers staðar þá trúir honum eiginlega enginn. Það er mjög jákvætt að sjá hvorum megin yfir 99% þeirra sem taka afstöðu stilla sér upp í þessu stríði. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvar það er. Það er ekki með málflutningi sendiherrans hér á landi.

Varðandi síðari punktinn um stöðu fatlaðs fólks í Úkraínu þá er þessi málflutningur hv. þingmanns mjög sambærilegur mínum viðbrögðum á fundinum í gær. Nógu erfitt, skelfilegt og ömurlegt er það að vera í þínu landi, á þínu heimili eða inn á stofnun þar sem þú dvelur en geta þó komið þér sjálfur burt eða vera í þeirri aðstöðu. Þessi hópur er sá allra, allra viðkvæmasti og getur í einhverjum tilfellum ekkert gert og jafnvel er það þannig að fólkið í kringum hann hefur flúið eða þurft að fara eða tekið ákvörðun um það. Það er í meira lagi átakanlegt að hugsa til þess hversu bjargarlaus þau eru. Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins er listi yfir samtök sem hægt er að styðja með beinum hætti. Þar er Þroskahjálp inni því þau eru að safna fjármunum til að senda beint á staðinn vegna þess að þar eru samtök sem geta þá vonandi einhvern veginn hjálpað fólkinu sem er þarna fast. Ef Rússar ætla ekki að veita þó þá björg að hægt sé að koma einhverjum út úr borgum þar sem hefur verið vatnslaust og rafmagnslaust í langan tíma, sem er fyrir neðan allar hellur að ekki sé gert, þá væri góð leið fyrir fólk sem hugsar til þessa hóps að leggja þar inn pening. Eftir ábendingu á fundinum í gær þá mun utanríkisráðuneytið nota hluta af því fjármagni í umboði íslenskra stjórnvalda, með fjármuni skattgreiðenda, og leggja fjármagn þar inn til að hjálpa á staðnum.