152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þar sem hún fer vítt og breitt yfir sviðið en nokkur atriði sem mig langar að nefna í því samhengi. Það er því miður hárrétt hjá hv. þingmanni að afleiðingar af Covid eru gríðarlega miklar og faraldurinn hefur haft í för með sér töluverða afturför, hvort sem litið er til hungurs, sárafátæktar, ofbeldis gegn konum, áhrifa á bólusetningar gegn öðrum sjúkdómum o.s.frv. Ég verð líka að taka undir með hv. þingmanni að þótt COVAX-samvinnan hafi skipt mjög miklu máli og svo sannarlega sómi að okkar hlutverki þar og eftir því er tekið og þau samtök sem þar vinna kunna mjög vel að meta að hið efnaða smáríki hafi tekið af skarið og gert sitt, þá hefur misskiptingin á milli heimsálfa verið átakanlega mikil þegar kom að afhendingu bóluefna vegna Covid-19 faraldursins.

Varðandi stöðuna í Afganistan þá þakka ég hv. þingmanni fyrir að nefna þetta hér. Auðvitað er mjög snúið að segja: Það er enginn að bera saman Úkraínu, Afganistan eða önnur svæði en það er samt mikilvægt að hafa það í huga að gleyma alls ekki eða láta það með einhverjum hætti bitna á svæðum sem búa líka við skelfilegar aðstæður. Afganistan er svo sannarlega eitt þeirra svæða þar sem staðan í mannúðarmálum hefur aldrei verið eins slæm og hún er núna að mati Sameinuðu þjóðanna. Það að 50% íbúa í Afganistan þurfi á alþjóðlegri mannúðaraðstoð að halda er algerlega ótækt. (Forseti hringir.) Auðvitað skiptir líka máli fyrir okkur að halda mjög í horfið og horfa vítt yfir sviðið þótt við séum síðan að gefa í og taka til okkar (Forseti hringir.) það sem þarf að gera varðandi Úkraínu.