152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en langar að taka það sérstaklega fram að þótt hv. þingmaður gagnrýni að skýrslan greini bara frá því sem gert hefur verið þá er það einmitt markmiðið með skýrslunni. Í skýrslunni er gerð grein fyrir því sem gert hefur verið á síðasta ári og m.a. á grundvelli stefna. Við erum með þjóðaröryggisstefnu, norðurslóðastefnu, þróunarsamvinnustefnu, utanríkisviðskiptastefnu og í yfirferðinni í skýrslunni eru atriði sem byggjast á þeim stefnum. Þessi skýrsla er ekki einhver heildarsamantekt á utanríkisstefnu heldur yfirlit yfir það sem gert hefur verið, m.a. á grundvelli þeirra stefna.

Hv. þingmaður nefnir talsvert að það sé bannað að tala um NATO en ég er ekki alveg sammála því. Ég er sjálf alltaf að tala um Atlantshafsbandalagið og hef tekið eftir því að það gera fleiri og stjórnarflokkarnir allir. Mér hefur þótt forsætisráðherra leysa það nokkuð vel af hendi sem forsætisráðherra í landinu að vinna eftir þjóðaröryggisstefnu og taka þátt sem leiðtogi ríkis sem er hluti af Atlantshafsbandalaginu þrátt fyrir stefnu síns flokks. Ég er ósammála því að við séum stefnulaus í öryggis- og varnarmálum vegna þess að þjóðaröryggisstefnan er mjög skýr. En þegar kemur að umræðu um Evrópusambandið og hlutverk Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum og friði o.s.frv. þá erum við með EES-samninginn og við erum í Atlantshafsbandalaginu. Það hefur reynst okkur nokkuð vel og ég held að hluti af ástæðunni fyrir því að Evrópusambandsflokkar hér hafi ekki verið að ræða neitt of mikið um Evrópusambandið sé að það hefur ekki verið mikil stemning fyrir þeirri umræðu og stuðningi við það. Það er tiltölulega stutt síðan var kosið og það var ekki kosið um aðild að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Mér finnst allt í lagi að flokkar ræði um möguleika á aðild að Evrópusambandinu. Það er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar en það er svo sannarlega hægt að þétta samstarfið (Forseti hringir.) og vera virkir þátttakendur án þess að vera með fulla aðild að Evrópusambandinu.