152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er þrennt. Í fyrsta lagi get ég náttúrlega með engu móti verið sammála því að ekki sé verið að gæta ýtrustu hagsmuna eða öryggis þjóðarinnar í okkar starfi, vinnu eða mati. Með punktinum áðan um að Evrópusambandsflokkana var ég að meina að mér fyndist þeir ekki hafa rætt neitt ofboðslega mikið um aðild að Evrópusambandinu. Þótt sumum þyki nóg um er ég frekar að vísa í að það hafi ekki verið svo mikið. Ég er alveg sammála því að flokkar með skýra sýn eiga að tala um þá sýn, en það er ekki hlutverk ríkisstjórnar að sannfæra þjóðina um Evrópusambandsaðild vegna þess að það er ekki stefna núverandi ríkisstjórnar.

Varðandi varnarsamninginn er þar mikið svigrúm til þess að taka ákvarðanir og bæði auka viðveru og annað slíkt. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni og því sem ég hef áður heyrt hana segja. Það er kalt hagsmunamat hvað þurfi til á hverjum tíma á öryggissvæðinu í Keflavík, um viðveru, eftirlit, viðbúnað og annað slíkt. Það er síðan háð samþykki utanríkisráðuneytisins þegar til þess kemur og að því leytinu til er svigrúmið nægilega mikið í varnarsamningnum til að taka slíkar ákvarðanir til að tryggja bæði öryggi okkar hér, varnargetu en líka fyrir okkur til þess að geta sinnt því hlutverki sem Atlantshafsbandalagið á að geta sinnt. Við höfum mikilvægu hlutverki að gegna þar, þ.e. ef þau telja þörf á því að hafa aukna viðveru hér til að geta fylgst með eða tryggt öryggi svæðisins í heild sinni.