152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og langaði að nefna nokkur atriði sem hann kom inn á, það sem snýr að fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu annars vegar og tvíhliða þróunarsamvinnu hins vegar. Dæmi um aukna áherslu á fjölþjóðlega þróunarsamvinnu eru loftslagsframlög, bóluefnasamstarf, mannúðaraðstoð og slíkt. Í Malaví höfum við til að mynda verið að vinna með stjórnvöldum og þá er það í raun líka útflutningur á hugviti, útflutningur á viðhorfi, vinnubrögðum og vinnulagi. Það hefur leitt af sér að nú hafa stærri ríki, með margfalt meira fjármagn, haft þor til að feta í okkar fótspor en hefðu kannski aldrei og kannski mjög seint tekið ákvörðun um að taka af skarið og prófa það. Við gerðum það og það hefur gengið vel og nú eru stærri ríki, með miklu meira fjármagn, að koma og gera það sama til að hjálpa samfélaginu að hjálpa sér sjálfu.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni þegar kemur að því að gleyma ekki öðrum svæðum. Þetta snýst ekki um að velja á milli þess að aðstoða úkraínsku þjóðina og aðra. Við verðum að vera meðvituð um að þó að það sé nær okkur og að hluta til annars eðlis, vegna þess að það er orðið öryggis- og varnarmál fyrir okkur hér, þurfum við samt að huga að því að stóru vandamál stóru svæðanna hurfu ekkert. Við þurfum áfram að skila okkar í því og gera enn betur.

Að lokum er ég sammála varðandi utanríkisviðskiptin. Við þurfum að stórauka áherslu á nýsköpun. Við höfum verið að gera það en þurfum að gera meira.