152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og langaði bara að bregðast við því sem hann fjallaði þar helst um, sem er hlutverk Evrópusambandsins og orð mín þar. Ég vona að sambandinu gangi sem allra best að ná sínum markmiðum og skil ágætlega og bara nokkuð vel að ríki eins og Úkraína sæki þar um aðild. Það er reyndar mjög langt síðan þau gerðu það og Evrópusambandið hefur ekkert verið mjög virkt í svörum þegar kemur að aðild þeirra að sambandinu. Mín orð sneru að hlutverki þeirra í öryggis- og varnarmálum, þ.e. að eðlilegt væri að Evrópusambandið liti meira til öryggis- og varnarmála vegna þeirrar stöðu sem upp er komin en það þýðir ekki endilega að hlutverk Evrópusambandsins sé að verða meira í því samhengi. Ef við horfum til að mynda á getu Evrópusambandsríkja og hlutverk og hlutfall þeirra innan Atlantshafsbandalagsins er staðreyndin sú að um 80% af umsvifum og fjármagni innan Atlantshafsbandalagsins kemur frá ríkjum sem eru ekki í Evrópusambandinu. Það er mjög eðlilegt að Evrópusambandið endurmeti sína stöðu í þessum málum nú, rétt eins og einstök ríki innan sambandsins gera, við gerum og ég hugsa að flest ef ekki öll ríki geri líka.