152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:53]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Nú hefur hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í annað sinn á þessum vetri tekið að sér að gera nauðsynlegar breytingar á kosningalögunum sem gengu í gildi um áramótin 1. janúar 2022. Ég kem hingað upp til að vekja athygli hv. þingmanna á því að fréttir bárust af því í dag að í kosningalögunum eins og þau voru samþykkt á hinu háa Alþingi á síðasta ári láðist, með vilja eða ekki, að hafa inni grein í lögunum sem tryggir að innsigla skuli kjörkassa. Ég verð að segja það, frú forseti, að mér er ekki skemmt. Eftir að hafa eytt 125 klukkustundum á fundum með kjörbréfanefnd síðastliðið haust vegna klúðursins í Borgarnesi hélt ég hreinlega að þessu væri lokið núna. En það er alveg ljóst að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun nú þurfa að taka að sér að lappa upp á löggjöfina eins og hún kom frá síðasta þingi.