152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er eiginlega alveg sjokkeruð eftir orð hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem benti okkur á að við þyrftum milli 2. og 3. umr. greinilega að gera breytingar á frumvarpinu sem við fjöllum um hér í dag vegna niðurstöðu sem barst í dag frá lögreglustjóranum á Vesturlandi sem benti á ágalla á lögunum. Það virðist vera sem þar hafi verið beitt svokallaðri afturvirkni laga, þar sem vantar að gera skýra kröfu um ákveðið form og ákveðnar reglur um meðferð kjörgagna í kosningalögunum eins og þau birtast okkur núna. Ég held að hæstv. forseti verði að taka þetta til alvarlegrar skoðunar varðandi dagskrá þingsins af því að ég held að við getum ekki, bara af tilliti við þingið og virðingu Alþingis, sent málið (Forseti hringir.) frá okkur sem lög frá Alþingi án þess að gera umræddar lagfæringar á frumvarpinu.