152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:01]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég greiði atkvæði með þessu þar sem ég hef ekki í hyggju að standa í vegi fyrir því að þær breytingar sem hér er verið að leggja til gangi í gegn. Ég vil hins vegar taka undir með fleirum sem hér hafa komið og bent á hversu vandræðalegt þetta er orðið. Í fyrsta lagi þurfti að gera gríðarlega miklar breytingar á frumvarpinu þegar það kom til afgreiðslu nefndar á síðasta þingi og það dugði ekki til. Svo má velta fyrir sér hvort þetta frumvarp hafi komið fram og verið samþykkt of snemma þar sem við fengum eina mestu prófraun á okkar löggjöf og framkvæmd á henni í kosningunum nú í haust. Þetta er í annað skipti, á þeim stutta tíma sem við höfum setið hér, sem við höfum þurft að breyta þessum lögum og nú er komið upp enn annað atvik sem maður veltir fyrir sér hvort kalli ekki á enn frekari breytingar. Ég hef ekki borið nýju kosningalögin saman við eldri kosningalög eða sett mig inn í þetta í þaula en ég velti fyrir mér hvort ástæða sé til að skoða þetta allt í heild sinni upp á nýtt. Þetta er farið að valda mér ítrekuðum áhyggjum, þeir ítrekuðu gallar sem við erum að sjá á þessum lögum.