152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[18:52]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég heyri ekki betur en svo að hæstv. ráðherra sé alls ekki sannfærður um að þetta frumvarp sé besta lausnin á þessu vandamáli. Mig langar til þess að beina annarri spurningu til hæstv. ráðherra þar sem það er alveg skýrt af þessari umræddri skýrslu umboðsmanns Alþingis að á spítölum landsins er viðhöfð þvingunarstarfsemi, gríðarlega alvarleg inngrip í persónufrelsi fólks og nauðung án lagastoðar, sem sagt ólögleg starfsemi. Í ljósi þess að þetta frumvarp er að koma fram núna og í ljósi þessara athugasemda sem komu fyrir allnokkuð löngu síðan þá virðist, ef marka má frumvarpið, sú framkvæmd sem er á spítölunum snúast m.a. um það að neyða fólk til hreinlætis og til fæðuinntöku. Þetta hljómar ekki sérstaklega vel. Mig langar til að beina spurningu til hæstv. ráðherra: Frá því að skýrsla umboðsmanns kom út og þar til þetta frumvarp, sem hefur ekki enn verið samþykkt, verður samþykkt, er þessi ólögmæta starfsemi enn þá viðhöfð (Forseti hringir.) á spítölunum? Er þetta enn í gangi? Var þetta ekki stöðvað strax í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis?