152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[18:55]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á að vera að trufla þessa mikilvægu umræðu til þess að skipta aðeins um umræðuefni. Ég hefði viljað brydda upp á þessu fyrr í dag en gafst ekki tækifæri fyrr en nú. Mig langar bara til að vekja athygli þingsins á því enn og aftur að engar breytingar hafa orðið varðandi lögbrot stjórnsýslunnar gagnvart þinginu er varðar umsóknir um ríkisborgararétt. Það hefur enn ekkert breyst í afstöðu Útlendingastofnunar, í afstöðu hæstv. dómsmálaráðherra. Það hefur ekkert mjakast hvað það varðar þrátt fyrir skýrt lögfræðiálit sem segir skýrum stöfum að stjórnvöldum beri að afhenda gögn sem þau enn neita að afhenda. Mig langar til að spyrja hæstv. forseta hvort það sé eitthvað að frétta af þeirra hlið hvað þetta mál varðar þar sem ég hef ekkert frétt sitjandi í undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar um ríkisborgararétt. Ég bíð átekta og velti fyrir mér (Forseti hringir.) hversu lengi við eigum að bíða eftir því.