152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[19:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Það var mjög áhugavert að heyra hæstv. ráðherra nefna það áðan að hann teldi ástæðu til að koma með þetta mál hingað til að fá umræðu um það í þinginu í kjölfar athugasemda umboðsmanns Alþingis. Ég ætla að taka undir með hæstv. ráðherra hvað það varðar að ég tel ástæðu til þess að þingið ræði mál er varða réttindi sjúklinga og grundvallarmannréttindi fólks gegn því að það sé beitt einhvers konar nauðung. Það sem stuðar mig hins vegar kannski við þetta mál er að sá staður sem umræðan er um í þessu frumvarpi er löngu liðinn. Við erum löngu komin yfir þetta. Í þessu frumvarpi stendur til að lögfesta gríðarlega víðtækar, mjög víðtækar, heimildir til inngripa í frelsi fólks til þess að því er virðist að þvinga fæðu ofan í það, þvinga það til hreinlætis. Ég veit ekki hvernig það virkar og er ekki viss um að ég vilji endilega heyra útlistanir á því, þvinguð lyfjagjöf, við erum að tala um gríðarlega alvarleg inngrip í réttindi fólks. Það eru ekki miklir varnaglar. Það er talað almennt um að það sé bannað að ganga inn á þessi réttindi fólks en undanþágurnar eru svo víðtækar og svo auðveldar. Talað er um að jafnvel bara ef taldar eru líkur á að einstaklingur verði hættulegur sjálfum sér eða öðrum sé heimilt að beita nauðung.

Alla vega, ég er hér í andsvörum við hv. þm. Loga Einarsson og í ræðu hans hjó ég eftir því að hann nefndi — og raunar kom líka fram í andsvörum hans við hæstv. ráðherra það sem ég velti fyrir mér enn þá, af því ég skil ekki enn þá hvernig við getum verið stödd á þessum stað. Hv. þingmaður nefnir að við vitum öll hvaðan þetta kemur, hver tilgangurinn er og það að baki þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann nánar út í þetta. Hvað gengur fólki til ef það er ekki það að bæta réttindi fólks?