152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:49]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim sem komið hafa hingað upp og gert athugasemdir við það að mál sé tekið af dagskrá án skýringa. Ég tók til máls varðandi þetta mál þegar það var til umræðu í gær en þó eingöngu í andsvörum og var búin að undirbúa ræðu fyrir þetta í dag. Þetta er grafalvarlegt mál, þetta er stórt mál og að mörgu leyti fagna ég því að þetta hafi verið tekið af dagskrá. Það væri óskaplega gott að fá það staðfest ef einhver veit um afdrif málsins, að til standi að draga það einfaldlega til baka. Málið er ekki unnið með fullnægjandi hætti, eins og hefur komið hérna fram, þar sem ekki hefur verið haft samráð við aðila sem hafði verið lofað samráði. Ég vona að það séu afdrif málsins. En það væri sannarlega vont ef það dytti síðan allt í einu inn á dagskrá í sömu mynd án þess að við hefðum í rauninni nokkra hugmynd um það. Það er bara almenn kurteisi og virðing við þingið að upplýsa okkur um stöðu málsins og ég óska eftir því að ef einhver í salnum þekkir stöðu málsins eins og hún er þá væri gott að fá örlítið meiri upplýsingar.