152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[14:34]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir að eiga þessa umræðu um orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar. Í ljósi tveggja nýlegra skýrslna sem á ólíkan hátt stilla upp mikilvægi skýrrar stefnumótunar og aðgerða sem stemma stigu við loftslagsbreytingum og stuðla að hröðum orkuskiptum, tel ég mjög mikilvægt að við eigum þetta samtal hér í þingsal. Annars vegar er um að ræða skýrslu starfshóps, skipuðum af hæstv. ráðherra, um stöðu og áskoranir í orkumálunum, sem kom út í síðustu viku. Í skýrslunni eru dregnar upp sex sviðsmyndir af orkuþörf framtíðar. Þessar sviðsmyndir gefa okkur ákveðnar hugmyndir um hvernig orkumálin geta þróast á ólíkan hátt eftir því hvaða ákvarðanir verða teknar um orkunýtingu en þessu þarf að fylgja eftir með skýrri pólitískri stefnu og raunhæfu mati á orkuþörf út frá því.

Orkuframleiðsla á Íslandi er sú mesta í heimi á hvern íbúa. Það felst í þeirri staðreynd að 80% af raforku sem framleidd er á Íslandi eru notuð í orkufrekan iðnað á meðan um 20% eru til almennrar notkunar og fyrir minni iðnað og fyrirtæki. Það er því ljóst að það eru mörg sóknarfæri í betri nýtingu á orkunni okkar. Við munum þurfa að forgangsraða orkunni í þágu innlendra orkuskipta, minnka tap í orkukerfinu og bæta nýtingu í virkjunum sem fyrir eru, m.a. með betri nýtingu vélbúnaðar og þess varma sem glatast. Það er okkar meginskylda gagnvart umhverfinu og íslenskum almenningi nútíðar og framtíðar að leggja vörðurnar að markmiðum okkar um jarðefnaeldsneytislaust og kolefnishlutlaust Ísland í síðasta lagi árið 2040. Við vitum að skrefin í áttina að þessum markmiðum verða að vera róttæk og framsækin. Við munum þurfa að trappa niður losun á öllum sviðum samfélagsins. Síðustu vikur hafa sýnt okkur styrkinn í því að vera óháð öðrum þegar kemur að orkuframleiðslu. Það eru því enn fleiri rök fyrir því að hraða orkuskiptum innan lands.

Í ljósi alls þessa velti ég því fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra hyggst tryggja sjálfbæra framtíð og skýra stefnumótun um orkumálin og hvort sú stefnumótun taki mið af forgangsröðun innlendra orkuskipta.

Herra forseti. Aðgerðir í þágu orkuskipta munu þurfa að gæta jafnvægis milli náttúruverndar, orkuþarfar og samfélagslegra þátta og þær þurfa að taka mið af réttlæti en í stjórnarsáttmála segir, með leyfi forseta:

„Sátt verður að ríkja um nýjar virkjanir til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í takt við vaxandi orkunotkun samhliða útfösun jarðefnaeldsneytis, til að mæta fólksfjölgun og þörfum grænnar atvinnuuppbyggingar.“

Ég velti því fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að tryggja megi samfélagslega sátt um nýjar virkjanir.

Seinni skýrslan sem ég vísa til er stöðuskýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem kom út 28. febrúar síðastliðinn. Skýrslan leggur mat á áhrif loftslagsbreytinga á lífríki og samfélög auk þess sem hún leggur til nauðsynlegar aðgerðir til aðlögunar. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þau afdráttarlausu skilaboð sem skýrslan gefur okkur enda erum við langflest meðvituð um boðskapinn en hún er augljóst ákall eftir skýrri stefnumótun stjórnvalda og leggur áherslu á kerfisbreytingar og loftslagsréttlæti. Skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum eru fjölþættar og snúa að miklu meiru en bara orkuskiptum. Þegar gripið er til aðgerða gegn loftslagsvá þarf að hafa í huga mikilvægi þess að ná samlegðaráhrifum. Þetta hefur verið áhersla ríkisstjórnarinnar og er grundvöllur nálgunarinnar í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Aðgerðir sem tengjast endurheimt skóga eða votlendis vinna t.d. líka gegn loftslagsbreytingum ásamt því að auka líffræðilegan fjölbreytileika og veita vernd gegn eyðimerkurmyndun. Allt eru þetta alþjóðlegar skuldbindingar sem við höfum undirgengist í stórum samningum Sameinuðu þjóðanna.

Í þessu samhengi velti ég fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra hyggst tryggja samlegð aðgerða í orkuskiptum þannig að opinbert fjármagn sé samnýtt í þágu annarra markmiða og skuldbindinga Íslands.

Heildstæð nálgun á loftslagsmál felur bæði í sér að trappa niður losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu en líka að grípa til mótvægisaðgerða sem gera samfélaginu kleift að aðlaga sig að óhjákvæmilegum afleiðingum loftslagsvár. Í ljósi tíðari og alvarlegri náttúruváratburða af völdum loftslagsbreytinga, þar sem viðkvæm vistkerfi á norðurslóðum eru líkleg til að verða illa úti, hefur ráðherra áform um að leggja aukna áherslu á aðlögun á aðgerðir gegn loftslagsvánni?

Vísindin draga upp skýra mynd um alvarleika loftslagsbreytinga og mikilvægi skýrrar stefnumótunar í orkuskiptum. Við stöndum á tímamótum þar sem við þurfum að leggja grunninn að lágkolefnissamfélagi framtíðar.