152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[14:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú erum við að ræða eitt af stóru málunum, orkuskipti, sem varðar umhverfið. Við Íslendingar erum, því miður, umhverfissóðar og það sem er kannski verst er að þeir sem eru mestu umhverfissóðarnir eru þeir sem eru ríkastir. Við verðum að passa okkur í öllum okkar aðgerðum að það bitni ekki á þeim sem síst skyldi, fólki sem er ekki að menga heldur er eingöngu að reyna að lifa af. Á Íslandi höfum við orðið vör við aurskriður og einnig skeður það mjög oft að það verður sinubruni og mosabruni eins og varð á Snæfellsnesi. Við erum svolítið værukær gagnvart skógunum okkar eins og með Skorradalinn. Skorradalurinn er brunagildra. Við segjum: Við erum á Íslandi, það kviknar ekkert í hjá okkur. En horfum til Ástralíu, það kviknar í eitt sumarið og næsta ár liggur við að allt drukkni í vatni. Þetta segir okkur að við erum ekkert örugg og ef það getur kviknað í sinu eða í mosa þá getur kviknað í skógunum okkar. Við verðum að fara að hugsa um það núna þegar við ætlum að auka skógrækt að vera með brunabelti. Læra af reynslunni, læra af þeim sem hafa lent illa í þessu. Við getum ekki leyft okkur að loka bara augunum og hugsa: Ja, þetta kemur ekkert fyrir okkur, við þurfum ekkert að gera í þessu. Við þurfum að eiga tæki og tól til að takast á við þetta þegar þar að kemur. En því miður, hér var aðeins til ein skjóða til að slökkva eld, sem var biluð, síðan var keypt ein í viðbót en það þarf, held ég, að eiga nokkrar út um allt land.