152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[14:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Hér fyrr í vikunni kom út stöðuskýrsla frá starfshópi um stöðuna í orkumálum hér á landi, sem ég er ánægður að heyra að fólk er hætt að kalla grænbók því að það var eins mikið rangnefni og hugsast getur í ljósi þess að skjalið var unnið á fjórum vikum sem býður ekki upp á þá yfirvegun sem grænbókarvinna kallar á og byggir ekki á neinum sjálfstæðum greiningum heldur snerist einfaldlega um það að starfshópur fékk til sín nokkra óskalista frá talsmönnum stóriðjunnar og orkugeirans, lagði þá inn í þessa skýrslu og sagði: Hér eru sviðsmyndir fyrir íslenskt samfélag. Þetta er náttúrlega allt of þröng nálgun til að geta verið grundvöllur fyrir þá umræðu sem við verðum að eiga um orkuvinnslu til framtíðar hér á landi. Þeirri tillögu sem Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands lögðu fram var ýtt pent út af borðinu í skýrslunni sem einu sinni hét grænbók. Eftir stendur sú staðreynd að ef við tölum bara óskorað um orkuskipti án þess að ræða það hvert þau eiga að fara þá stöndum við frammi fyrir gífurlegum vanda vegna þess að orkuiðnaðurinn er óseðjandi. Hann gæti virkjað hvern einasta dropa sem drýpur á Íslandi og það myndi ekki duga honum. Það sem við þurfum er að sníða okkur stakk eftir vexti. Hér á landi er búið að virkja meiri raforku fyrir hvert mannsbarn en í nokkru öðru landi. 80% þeirrar orku fara til stóriðjunnar. Við þurfum að sjá hvernig við getum hjálpað hinum 20% að ná utan um íslenskt samfélag. Ef við aukum orkuframleiðslu á Íslandi þá má það ekki vera þannig að stóriðjan verði áfram 80% af stærri köku vegna þess að fyrst þá er verið að nota loftslagsvána sem bensín á mótor einhvers allt annars en grænna markmiða.