152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[15:03]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það má aldrei nota loftslagsmálin og loftslagsmarkmið sem afsökun fyrir því að skilja fólk eftir í viðkvæmri stöðu. Það gerði hv. formaður fjárlaganefndar í viðtali í gær þegar hún skýldi sér á bak við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar til að réttlæta aðgerðaleysi gagnvart heimilunum sem nú súpa seyðið af gríðarlegum verðhækkunum, hækkun verðs á bensín og dísil, hækkun húsnæðiskostnaðar og 6,2% verðbólgu, virðulegi forseti. Við höfum verk að vinna í loftslagsmálum og orkuskiptum, en það mun aldrei nást sátt í samfélaginu um alvöru loftslagsaðgerðir nema tekjulægstu og viðkvæmustu hópunum sé hlíft. Nágrannalöndin hafa nú þegar kynnt aðgerðapakka til að mæta þessari lífskjarakreppu heimilanna. Enn og aftur eru íslensk stjórnvöld eftir á og nú skýla stjórnarliðar sér á bak við loftslagsaðgerðir. Það er hægt að styðja við heimilin og vinna að loftslagsmálum, virðulegi forseti. Svíar kynntu í gær aðgerðir til að draga úr bensínkostnaði tímabundið samhliða auknum hvötum til að kaupa rafmagnsbíla. Hverjir eru það í landinu sem hafa kost á því að kaupa sér nýjan rafbíl fyrir margar milljónir króna? Það er ekki ungt fólk, öryrkjar, ekki fólk sem er undir meðaltekjum. Hverjir eru það aftur á móti sem bera ábyrgð á því að markaður fyrir notaða bíla er að mjög litlu leyti með rafbíla innanborðs? Hverjir bera ábyrgð á því að lítill áhugi er meðal ferðamanna á að nýta sér rafbíla hér á landi og hverjir bera ábyrgð á erfiðleikum við að taka þátt í orkuskiptum í dreifbýlinu? Jú, það eru stjórnvöld sem hafa ekki staðið sig í stykkinu þegar kemur að því að byggja upp innviði fyrir rafbíla um allt land. Ég hvet ríkisstjórnina til að nýta ekki málaflokk loftslagsmála sem skálkaskjól fyrir aðgerðaleysi í efnahagsmálum.