152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[15:05]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa nauðsynlegu umræðu hér í dag. Það virðist sem að á síðustu árum hafi ríkt ákveðin hræðsla við að ræða orkumál á Íslandi sem leitt hefur til ákveðinnar stöðnunar og jafnvel hefur því verið haldið fram að skort hafi hugrekki til þess að taka þessa umræðu af fullri alvöru. Stærsta framlag Íslands til loftslagsmála er nýting þjóðarinnar á grænni orku. Í dag státar engin önnur þjóð af jafn mikilli nýtingu á grænni orku líkt og við Íslendingar gerum en 85–95% af allri orku sem Íslendingar nota er græn orka. Við getum verið stolt af því en betur má ef duga skal. Þverpólitísk nefnd skilaði orkustefnu til ársins 2050 í mikilli sátt og horfa stjórnvöld á þá stefnu sem leiðarljós inn í framtíðina. Í stefnunni voru sett metnaðarfull markmið þar sem lögð er áhersla á að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050. Það er einlægur vilji minn að þjóðin verði sjálfbær hvað eldsneyti varðar og hætti alfarið að kaupa olíu og bensín erlendis frá. Við hljótum öll að vilja ná þessum markmiðum og leggja okkar af mörkum í loftslagsmálum en það er ekki það eina. Ef Ísland nær að verða sjálfbært varðandi orku mun það einnig hafa jákvæð efnahagsleg áhrif fyrir Ísland. Við komum til með að spara gríðarlegar gjaldeyristekjur ásamt því að mörg verðmæt störf geta orðið til. Ísland hefur öll tækifæri til að vera leiðandi í lausnum sem munu leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Í því samhengi er mikilvægt að hið opinbera og almenningur styðji við nýsköpunarfyrirtæki. Sjálfbærni er eftirsóknarvert markmið hvort heldur er í eldsneyti eða fæðuöryggi þjóða og hagvöxtur framtíðarinnar mun byggjast á grænni orku. Orkustefnan segir að orkuþörf samfélagsins verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma og að jafn aðgangur verði á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði, að við verðum alltaf með græna orku til heimila og fyrirtækja. Þessi markmið eru metnaðarfull og góð (Forseti hringir.) en spurningunni, hvernig við ætlum að afla þessarar grænu orku, er enn ósvarað. Nú þurfum við að fara að taka ákvarðanir sem sumum geta þótt erfiðar en eru þó nauðsynlegar.