152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[15:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Að virkja eða virkja ekki. Jú, við verðum sennilega að virkja, en hvað eigum við að virkja? Loft, vatn og sjávarföll? Færeyingar eru að gera góðar tilraunir með sjávarfallavirkjanir og við eigum að fylgjast vel með því og læra af þeim. En það er staðreynd að ég styð virkjanir til að fara í stóriðju, eina stóriðju. Það er gróðurhúsastóriðjan. Gerum risagróðurhúsastóriðju að markmiði. Hvers vegna? Jú, við verðum sjálfbær, bæði með grænmeti og jafnvel að stórum hluta ávexti. Metnaðarfullt? Já, en við höfum allt, hreint vatn, heitt vatn, rafmagn. Ef aðrar þjóðir, eins og Hollendingar, geta verið stórtækar í svona gróðurhúsarækt þá getum við það líka. Hugsið ykkur sparnaðinn í kolefnissporinu við að flytja allar þessar vörur hingað til landsins. Þess vegna eigum við að hugsa vel og vendilega út fyrir boxið en á sama tíma verðum við líka að gera eitthvað fyrir fátækasta fólkið sem er nú að reyna að komast í og úr vinnu á gömlum bílum sem eyða 15–20 lítrum á hundraðið. Á sama tíma er verið að minnka ívilnanir vegna tengiltvinnbíla og fljótlega dettur niður niðurfelling upp á hálfa milljón og ég spyr mig: Hvers vegna ekki að framlengja þetta? Að stærstum hluta, sem er í 90% tilfella, dugar rafmagnið á þessum bílum til að keyra innan Reykjavíkurborgar, t.d. í og úr vinnu, sem flest þetta fólk er að gera.