152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[15:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Herra forseti. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að kenna eða skóla hæstv. ráðherra til í grænum hagvexti. Í rammagrein 7 er talað um aukna áherslu á velsæld, og þetta er fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sjálfrar:

„Velsæld er samnefnari yfir aðra þætti en landsframleiðslu til að meta lífsgæði íbúa og hafa stjórnvöld ákveðið að forgangsraða þessu stefnumáli. Velsældaráherslurnar sex eru andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum, virkni í námi og starfi, kolefnishlutlaus framtíð, gróska í nýsköpun og betri samskipti við almenning.“ — En þarna vantar sjálfbærni.

Með fullkominni sjálfbærni skiptir hagvöxtur ekki máli. Tökum dæmi um hagvöxt. Hérna er ljósapera, það er nýbúið að skipta um eina af þeim 16 ljósaperum sem hanga í loftinu. Ef ljósaperur eru viljandi gerðar óskilvirkari, t.d. með sjálfkrafa úreldingu, þarf að kaupa fleiri ljósaperur og það þarf að framleiða fleiri ljósaperur. Úr þessu verður hagvöxtur; meira framleitt, meira keypt, meiri hagvöxtur. En á sama tíma er einnig meiri sóun nema það sé fullkomin endurvinnsla í gangi líka; fullkomin sjálfbærni. Ef ljósaperur eru gerðar þannig að þær endist betur þarf ekki að kaupa eins margar og ekki framleiða eins margar heldur. Þannig dregst hagvöxtur saman en kaupmáttur fólks, sem áður þurfti að eyða pening í ljósaperur, eykst. Þetta ljósaperudæmi er ekki úr lausu lofti gripið. Stærstu ljósaperufyrirtæki heimsins voru áður með allsherjarmarkaðssamráð til að takmarka endingartíma ljósaperunnar í þágu eigin hagvaxtar en ekki almennings. Hagvöxtur fyrir suma þar sem kakan fræga stækkar og stækkar en kökusneið fyrir þau sem eiga stækkar líka hlutfallslega meira en þeirra sem eiga ekki.

Ég velti því fyrir mér, af því að það skiptir máli í hvað við notum orkuna, ef það kæmi eitthvert fyrirtæki hingað og segði: Ég ætla að fá eina teravattstund til að grafa eftir bitcoin. Myndum við segja já, ef gull og grænir skógar væru í boði? Að sjálfsögðu ekki því að það er algjört drasl að vera að grafa eftir einhverjum bitcoins. (Forseti hringir.) Rafmyntir eru ábyrg tækni en það eru til miklu betri rafmyntir sem eyða ekki nærri eins mikilli orku og bitcoin, sem dæmi. Þannig að það skiptir máli að velja (Forseti hringir.) hvað við framleiðum, af því að við þurfum sjálfbærni.