152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[15:15]
Horfa

Ágústa Ágústsdóttir (M):

Frú forseti. Kjarni orkumála á Íslandi er sá að dreifikerfi rafmagns er úrelt og úr sér gengið og nær engan veginn að bera þá orku sem þegar er í boði að nota. Hana þarf að byggja upp í gær, fyrr þýðir ekkert að ræða um virkjanir eða ekki virkjanir. Nú er herjað á innflutning og uppsetningu vindmylla til að leysa orkuvandamál Íslendinga. Vindmyllur eru yfirleitt hannaðar til að endast minnst 20 ár í erfiðu umhverfi eins og raka, hita, kulda, sandstormum og salti, en þegar betur er skoðað er meðallíftíminn um 13–14 ár. Spaðar vindmyllu eru framleiddir úr trefjagleri sem nánast útilokað er að endurvinna og yfir líftíma þeirra dreifist ógrynni af örplasti og trefjum út í umhverfið. Þetta veldur uppsöfnun þeirra sem oftast enda sem landfyllingarefni eða er sent til landa eins og Afríkulanda. Þrátt fyrir að unnið sé að þróun grænstáls og endurvinnslu á spöðum þurfum við þó að horfast í augu við að fyrir árið 2050 munu safnast upp tugmilljónir tonna af gömlum vindmylluspöðum. 2 MW vindmylla er um 250 tonn að heildarþyngd. Til að búa til 1 tonn af stáli þarf u.þ.b. hálft tonn af kolum. 25 tonn í viðbót af kolum þarf til að framleiða sementið í undirstöðurnar. Þetta eru um 150 tonn af kolum á hverja vindmyllu. Vindmyllur er óstöðug orkuvinnsla og geta eingöngu fangað tæplega 60% vindorkunnar. Þá á eftir að reikna þá orku sem tapast vegna loftflæðis og þeirrar ókyrrðar sem túrbínan sjálf myndar, sem getur dregið framleiðsluna niður í 30–40% þegar blæs. Hver vissi t.d. að við framleiðslu af 1 tonni af jarðmálminum neodymium, sem þarf um 360 kíló af í eina 2 MW vindmyllu, verða til 77 tonn af koltvísýringi? En til samanburðar verða til 1,9 tonn af koltvísýringi við framleiðslu á 1 tonni af stáli. Það er hinn sári sannleikur að umhverfisvernd hefur lítið að gera með að bjarga umhverfinu því að menn eru allt of viljugir til að fórna umhverfinu fyrir hugmyndafræðina eina.