152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[15:19]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu og sömuleiðis hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í henni. Mér þótti umræðan að langstærstum hluta vera málefnaleg og yfirveguð og ég held að það sé mjög mikilvægt að við nálgumst þetta verkefni með þeim hætti. Það er auðvitað til mikils að vinna. Við þekkjum það í þeim orkuskiptum sem við fórum í, bæði í fyrstu og öðrum orkuskiptunum, að það hefur gert það að verkum að um 85% af þeirri orku sem við erum að nýta eru græn. Það er ávinningur sem enginn hefði viljað missa af. Auðvitað var það ekki auðveld vegferð. Menn þurfa ekki að skoða mikið í sögunni til að sjá að það var ekki eins og því væri fagnað þegar menn voru með þessar stórhuga áætlanir og ýmislegt var sagt um það fólk sem þar gekk á undan. Ég held að þetta fólk, sem við erum svo lánsöm að hafi ráðið för, ætti að vera okkar fyrirmyndir. Við erum með metnaðarfyllri markmið en flestir ef ekki allir þegar kemur að þessum þáttum. Ef við náum árangri, ef við náum markmiðunum, þá verðum við í einstakri stöðu í heiminum. Það mun nýtast okkur á öllum sviðum. Það mun nýtast okkur þegar við erum að selja vörur og þjónustu. Það mun nýtast okkur á alþjóðavettvangi og við verðum án nokkurs vafa stolt af þeim árangri. En til að ná þessum árangri þurfum við að vanda okkur. Hér voru nefndir hlutir eins og t.d. réttlát umskipti, sem skipta máli, og sömuleiðis verðum við alltaf að hafa jafnvægi milli náttúruverndar og þess að búa til græna orku. Við megum aldrei missa sjónar á þeim bolta.