152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[15:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að það sé frekar bagalegt að við séum að breyta þessum lögum þetta oft þetta stuttu eftir að heildarendurskoðun átti sér stað. Pollýanna myndi kannski benda á að það væri líka hraustleikamerki að við gætum lagað hluti þannig að þeir verði eins góðir og hægt er þegar til kastanna kemur. Mig langar aðeins að spyrja út í atriði sem ég velti upp í andsvörum við 2. umr., í ljósi þeirra tilfinninga sem eru kannski farnar að vaxa hjá okkur mörgum, þ.e. að það geti verið fleiri ágallar sem þurfi að taka á í lögunum, hvort stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi rætt það — jú, hv. þingmaður sagði að til stæði að skoða þetta eina tiltekna atriði varðandi innsigli kjörgagna og það er þá eitthvað sem myndi gerast í bráð en kannski til lengri tíma, þá mögulega inn í næsta þingvetur — að setja af stað einhvers konar vinnu við úttekt eða endurskoðun á heildarendurskoðuninni, bara til þess að við getum verið dálítið tímanlega í því að sjá til þess að þessi lög verði orðin eins góð og hægt er áður en gengið verður til næstu kosninga þar á eftir, sem væru þá væntanlega alþingiskosningar 2025 eða fyrr. Einmitt þess vegna er kannski gott að gera þessa hluti fyrr frekar en síðar af því að við vitum aldrei hvenær þarf að grípa til laganna. Og ef við lendum í því, ja, eins og hefur gerst, að stjórn hverfi ansi brátt frá völdum þá getur þurft að beita lögunum á stuttum tíma og þá getum við ekki verið að standa í lagfæringum í leiðinni.