152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[15:26]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Þannig er að á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun var ákveðið að hefja skoðun á þeim þáttum sem fóru í kastljósið í gær vegna niðurstöðu lögreglustjórans á Vesturlandi. Auðvitað útilokar það ekki að nefndin skoði betur aðra þætti þessa mikla lagabálks en þarna var verið að steypa saman fernum lögum, ef ég man rétt, í stóran lagabálk um kosningar. Mér sýnist, eftir að hafa skoðað þetta lauslega, og ég ætla að viðurkenna að það er bara lauslega af því að tíminn hefur ekki verið mikill, að staðan sem við erum í sé fyrst og síðast til komin vegna þess að allt of lítill tími var ætlaður til innleiðingar þessara miklu breytinga og þessa stóra lagabálks. Af því þarf að læra. Mér skilst að hv. þingmenn á síðasta kjörtímabili hafi jafnvel verið svo metnaðarfullir að ætla að innleiða breytingarnar fyrir alþingiskosningarnar í haust. Nú hafa lögin tekið gildi en við erum að vinna í kappi við tímann vegna þess að það eru sveitarstjórnarkosningar eftir tvo mánuði. En ég held að af þessu megi draga ýmsan lærdóm, t.d. að það þurfi að flýta sér hægt þegar svona miklar breytingar eru gerðar. Ég sé í fljótu bragði ekki tilefni til þess að þessi staða kalli á heildarendurskoðun löggjafar sem gekk í gildi eftir heildarendurskoðun um síðustu áramót.