152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[15:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held það séu nokkrir lærdómar sem við getum dregið af þessari reynslu. Ég tek undir það með hv. þingmanni að eitt af því sem við getum lært af þessu er hversu stuttur tími hafi verið áætlaður til innleiðingar á jafn viðamiklum breytingum sem snerta jafn marga framkvæmdaraðila og þessi lög gera. Annar hluti af tímalínunni sem var of knappur var síðan tíminn á milli 2. og 3. umr. fyrir ári. Þar hefði þingið kannski mátt gefa sér smáandrými til að geta lagst yfir breytingarnar sem samþykktar höfðu verið við 2. umr. til að sjá hvort þær „meikuðu sens“. Síðasta breyting snerist einmitt um eitthvað sem óvart „meikaði ekki sens“ sem og stór hluti af þeirri sem við erum að ræða hér í dag. Kannski hefðum við gripið þetta ef þingið hefði haft tíma til að leyfa málinu að liggja í eina til tvær vikur á milli 2. og 3. umr.

Já, það er kannski óþarfi að fara í einhverja heildarendurskoðun á nýheildarendurskoðuðum lögum. En ég held að það væri ráð fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að ráðast í einhverja vinnu í haust eftir að þessi lög hafa farið í gegnum fyrsta umgang, það er búið að framkvæma kosningar eftir nýju lögunum einu sinni, vegna þess að kosningalög eru — þetta er svo mikil handbók, þetta er bara flæðilína fyrir framkvæmd kosninga og eðlilega koma vandamálin þá stundum ekki fram fyrr en á reynir. Í haust væri kannski upplagt, meðan við bíðum þess að ríkisstjórnin mæti með sín fyrstu mál, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd settist niður með þeim sem best þekkja framkvæmdina og færi yfir það hvort eitthvað megi bæta fyrir næstu kosningar á eftir.