152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[15:30]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú sem hér stendur býr að því að hafa setið í kjörbréfanefnd síðastliðið haust og nýtur þeirrar reynslu við þetta viðfangsefni. Ég tek undir það með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að að sjálfsögðu er hluti af vandanum, ef við bara köllum það það sem það er, að við þinglok, þegar hillir undir þinglok, sérstaklega fyrir jól eða að sumri, ég tala nú ekki um þegar kjörtímabili er að ljúka, fara menn að vinna mjög hratt og oft of hratt og til eru mýmörg dæmi um að gerð hafi verið mistök í lagasetningu við þær aðstæður. Það er auðvitað okkar hér sem sitjum á hinu háa Alþingi að taka höndum saman um að breyta þingskapalögum þannig að við störfum ekki lengur með þessum hætti. Og af því að hv. þingmaður var að benda á verkefni fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þá teldi ég það mjög verðugt verkefni fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að endurskoða þingskapalögin og koma betra skikki á starf þingsins og þingheims. En það þarf auðvitað að skoða þetta tiltekna mál í stóra samhenginu. Eitt af því sem er að renna upp fyrir mér er að við þessa lagasetningu á síðasta þingi og í júní síðastliðnum var farin sú leið sem gjarnan er nú farin við lagasetningu og það er að hafa sjálfan lagatextann tiltölulega knappan en vísa í reglugerðir. Við vitum að allt sem stendur í reglugerð verður að eiga sér lagastoð og það er fyrst og fremst það sem þarf að vera í lagi þegar svona er gert. Áður var því svo farið að það voru í raun mjög nákvæmar leiðbeiningar í lagatextanum. Nú verður skrifuð einhvers konar handbók í reglugerðinni (Forseti hringir.) en allt sem þar stendur þarf að eiga sér lagastoð og það þurfum við að skoða vandlega.