152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[15:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir góða og ítarlega yfirferð yfir mál sem skiptir býsna miklu og það er hvernig við stöndum að kosningum í okkar ágæta lýðræðisríki. Ég er líkt og hv. þingmaður og fleiri hér inni, hygg ég, í hópi þeirra sem vörðu ófáum vikum síðastliðið haust í að fara yfir þessi mál vegna fúsksins, (Gripið fram í.) svo að ég noti nú það orð…(Gripið fram í.) — ég ætlaði að segja hlutlaust en það er önnur saga — við framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi og þetta eru vikur sem ég fæ ekki til baka, bara svo það sé sagt hér, sem ekkert okkar fær til baka. Það var þess vegna, svo ég byrji bara á því máli sem stendur mér svolítið nærri, vegna þessa og þeirrar vinnu sem við lögðum í þetta, óneitanlega áhugavert að sjá fréttaflutning af því að málið hefði verið látið falla niður, ekki endilega að þetta hefði verið fellt niður heldur að ástæðan hefði verið vafi vegna kosningalaganna. Ofan á allt það sem á undan er gengið sitjum við því uppi með einhverja lúkningu sem er ekki lúkning heldur líklega einhvers konar endahnútur á þessu máli vegna þess að vafi leikur á kosningalögum. Hv. þingmaður talaði t.d. um það áðan hve mikið við mættum bæta okkur sem löggjafi þegar við værum að vinna þessi mál og mig langar til að spyrja hvað hann sér helst fyrir sér. Það kom t.d. fram í máli hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, að hér þyrfti mögulega líka, til viðbótar við það að skoða þennan kosningabálk, (Forseti hringir.) að skoða þingsköpin. Hvernig getum við reynt sem best að tryggja að þetta endurtaki sig ekki, hvort sem um er að ræða kosningalög eða aðra löggjöf?