152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[15:53]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ýmsar leiðir til, það er rétt, og hugmyndaauðgin er mikil. Auðvitað er það svo að það er ekki hægt að ramma, og sem betur fer, mannlega hegðun inn í kassa. Það hefur verið reynt og yfirleitt með mjög vondum afleiðingum. En það sem situr í mér í tengslum við akkúrat þessa umræðu, það er reyndar svo margt, er m.a. það að þegar nefndin fer í seinni endurtalningu eru enn að koma upp úr kössunum rangt talin atkvæði, atkvæði sett á rangan stað. Þetta er algjörlega óskiljanlegt í þessu litla kjördæmi. Ég er eiginlega að velta því fyrir mér, af því að nú tilheyrir hv. þingmaður flokki sem hefur nýtt sér rafræna kosningu, sá flokkur sem ég er í hefur nýtt sér það t.d. í prófkjöri: Er þetta kannski eitthvað sem við ættum að fara að huga að af meiri alvöru, að reyna að nýta tækni nútímans og bjóða upp á rafræna kosningu? Ég er kannski ekki alveg komin þangað, ég veit það ekki. En það væri svo sem áhugavert að heyra sjónarmið hv. þingmanns með auðkennisnúmer og hver kýs. Það eru gallar við það, alls konar möguleikar á einhvers konar þvingunum eða þess háttar, en það er líka hægt að hugsa sér rafræna kosningu þótt inni í kjörklefa sé. Þar velkist alla vega ekki neinn í vafa um hvað skrautskriftin á að þýða og erfitt að ógilda seðla o.s.frv. Er þetta eitthvað sem er algjörlega út úr myndinni að ræða vegna öryggissjónarmiða og eru þau öryggissjónarmið sterkari en þau sem við sjáum ítrekað rofin í núverandi fyrirkomulagi? Er þetta eitthvað sem við eigum að skoða fyrir alvöru? Er hægt að taka eitt lítið skref í þessa átt á einhvern hátt? Er þetta eitthvað sem gæti fært okkur á betri stað?