152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[15:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fræðsluna. Það er gott að heyra í hv. þingmanni sem hefur setið í kjörbréfanefnd og kom hérna upp með ákveðið dæmi um það hvaða atriði það eru sem verið er að fást við þegar verið er að reyna að greina vilja kjósandans. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í lögin og mikilvægi þess að lögin séu alveg skýr þegar kemur að reglum sem gilda um t.d. meðferð kjörgagna, reglur sem gilda um það þegar meta á atkvæði, hvað það er sem veldur ógildingu o.fl., hvort nauðsynlegt sé að ógilda seðil þegar einhver tekur ákvörðun um að skrifa litla vísu á bakhliðina til samanburðar við það þegar bókstafur er þannig að það er í rauninni uppi vafi um hver var ætlan viðkomandi. Af hverju segi ég þetta? Ég er kannski alltaf föst í mikilvægi þess að lög séu skýr, rétt eins og hv. þingmaður, að vandað sé til lagasetningar og í svona mikilvægum málum eins og kosningalögin eru, sem eru auðvitað bara handbók um framkvæmd kosninga og hvernig á að framkvæma þær til þess að tryggja að lýðræðið nái fram að ganga, hversu mikilvægt það er að þar sé ekki mikið af matskenndum atriðum fyrir formenn kjörstjórna hringinn í kringum landið til að framkvæma eitthvað eins og það hefur alltaf verið gert. Mig langar aðeins að fá að heyra sjónarmið hv. þingmanns í þessu.