152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[16:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Gríðarlega góð spurning. Ég upplifði það mjög sterkt í undanförnum kjörbréfanefndum að það er gríðarlegur vilji hjá kjörbréfanefnd til að túlka vilja kjósandans. Það er kjósandinn sem nýtur vafans og sérstaklega mikið í utankjörfundaratkvæðagreiðslu. En ef það er minnsta stílbrot á atkvæðaseðli á kjörfundi er atkvæði ógilt. Það er merkilega mikill munur þarna á milli, hversu ströng við erum varðandi kjörseðil á kjörfundi, þeir eru líka kannski formaðri, miðað við utankjörfundaratkvæðaseðil. Það var t.d. einn atkvæðaseðill sem var með svona öfugt C á utankjörfundaratkvæðaseðli, það sneri öfugt. Það skildi þetta enginn fyrr en seðillinn var lagður á borðið og sá sem sat á móti sá þá að þetta var bara venjulegt C. Þá hafði kjósandinn opnað utankjörfundaratkvæðaseðilnn öfugt, skrifað C og skilað honum. Er það ógilt atkvæði eða gilt að skrifa öfugt C? Þetta var dálítið merkilegt.

Annað sem er merkilegt, finnst mér, varðandi að túlka niðurstöðu kosninga og túlka vilja kjósenda er að við bjóðum upp á kosningar þar sem við erum að kjósa flokka þegar í raun og veru eru það fólk og einstaklingar sem fá umboð. Kosningakerfið okkar er þannig að við erum í raun og veru að kjósa fólk, einstaka þingmenn, en kosningakerfið og val kjósenda er við flokk. Þarna er munur á. Mér finnst hann áhugaverður.