152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[16:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Við ræðum hér mál sem mun væntanlega renna mjúklega í gegnum þingið og ekki mikill ágreiningur er um, enda um að ræða lagfæringar á gríðarlega mikilvægri löggjöf, mikilvægar lagfæringar. Ég held að öllum sé orðið ljóst, eftir atburði haustsins, hversu mikilvægt er að framkvæmd lýðræðislegra kosninga sé skýr, hún sé rétt og í samræmi við grundvallarhugsunina að baki lýðræðislegum kosningum, sem eru í okkar kerfi leynilegar og jafnar, og önnur grundvallaratriði sem lýðræði okkar byggir á.

Fram kemur að tilefni lagasetningarinnar séu m.a. ýmsar ábendingar sem hafi komið fram um þágildandi lög. Þá giltu tveir lagabálkar, annars vegar lög um kosningar til Alþingis og hins vegar lög um kosningar til sveitarstjórna. Ýmsar ábendingar höfðu sannarlega borist frá ýmsum aðilum, þar á meðal frá starfandi kjörstjórnum í gegnum tíðina, frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og öðrum aðilum sem ég fer nánar í hér á eftir.

Það sem hins vegar vekur upp áhyggjur mínar, og þær fara ekki minnkandi eftir því sem á líður, er að með þessum breytingum hafi kannski ekki bara því verið breytt sem þörf var á að breyta heldur hugsanlega hlutum sem ekki var þörf á að breyta. Það er að mínu mati gegnumgangandi í mjög mörgu í samfélagi okkar í dag, og hefur verið á síðustu árum, ákveðin tíska, ef svo má segja, að einfalda hlutina. Ef ég tala frá mínu persónulega sjónarhorni þá veldur það mér oft gremju, sem er þyrst í upplýsingar og vil alltaf vita allt í smáatriðum, að það er mjög mikil lenska núna að einfalda heimasíður stofnana, aðila, fyrirtækja og annað. Það sem gerist oft við slíka einföldun er að upplýsingar sem við þurfum á að halda hverfa. Nákvæmni upplýsinga og það að einhvers staðar sé hægt að nálgast ítarlegar upplýsingar er vanmetið, held ég, nú til dags. Ég óttast að það hafi spilað inn í við setningu þessara laga og þær áhyggjur mínar eru kannski að einhverju leyti staðfestar með því sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Í greinargerðinni er mikið rætt um einföldun. Það er mikið rætt um skilvirkni og önnur tískuorð, ætla ég að leyfa mér að segja; það sem ég tel stundum vera ofureinföldun og skerðingu á upplýsingum sem eru nauðsynlegar. Nema hvað að hér erum við ekki bara að tala um upplýsingar, hér erum við að tala um reglur. Ég skil þessi sjónarmið að mjög mörgu leyti. Ég skil þá viðleitni að vilja hafa hlutina einfalda. Fyrir mörgum verða hlutirnir skýrari með því að vera einfaldir en við lögfræðingar vitum að hlutirnir verða ekki endilega skýrari með því að verða einfaldir, oft verða þeir óskýrari og jafnvel oftast. En það á kannski einkum við þegar nákvæmnisatriði þurfa að vera á hreinu og þá sérstaklega í framkvæmd kosninga þar sem hvert einasta smáatriði getur skipt máli og getur hreinlega verið úrslitaatriði, og höfum við séð það.

Ég vil líka svolítið kenna ákveðinni einfeldni okkar Íslendinga um ákveðnar venjur og ákveðnar breytingar sem við gerum og mögulega einhverjar af þeim breytingum sem voru gerðar með setningu þessara laga sem lúta akkúrat að þessari einföldun og af því að kannski féllu út ákvæði sem þurfa að vera í lögunum. Ég held að við vanmetum og höfum vanmetið allt þar til nú í haust afleiðingar þess að smáatriðunum sé ekki fylgt, að smáatriðin séu ekki í lagi, framkvæmdin sé ekki í lagi og reglurnar séu ekki skýrar, við vanmetum það. Mig langar til að koma með nokkrar tilvitnanir. Þó að þær beri vott um gríðarlega alvarleg vinnubrögð og slæm vinnubrögð, ég ætla ekki að taka of djúpt í árinni, í kosningunum núna í haust — sem sagt þó að ummælin sem ég ætla að fá að rifja upp hérna séu mjög alvarleg og lýsi alvarlega miklu kæruleysi, hirðuleysi gagnvart nauðsyn þess að ákveðnar reglur séu virtar, þá held ég að þau endurspegli samt sem áður líka, alla vega að einhverju marki, einfeldni sem ég held að sé algengari en við kannski viljum viðurkenna, ákveðið svona „þetta reddast“-viðhorf og okkar traust til þess að það vilji nú örugglega enginn gera neitt slæmt. Það vilji allir gera vel og við séum öll rosa góð í grunninn og heiðarleg og allt það. Ummælin sem mig langar til að rifja upp eru ummæli fyrrverandi formanns yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi eftir kosningarnar núna í haust, alþingiskosningarnar í september 2021. Þá svaraði hann m.a., aðspurður um það hvers vegna gögn hefðu ekki verið innsigluð á meðan þau voru skilin eftir á milli talningarlota: „Það hafa aldrei verið nein vandamál í sambandi við þetta.“ Það er hans svar. Þetta lýsir auðvitað því viðhorfi að ef eitthvað hefur verið í lagi hingað til, það hefur enginn reynt að svindla á þessum kosningum hingað til, þá sé kannski ekkert endilega líklegt að það sé að fara að gerast. Aðspurður um aðgengi annarra að salnum en starfsfólks kosninganna og kjörstjórnar og annarra sagði formaðurinn: „Allar vangaveltur um slíkt eru bara bull.“ Það kom síðan fleira í ljós við nánari skoðun. Þá kom í ljós að annað fólk hafði aðgang að salnum og jafnvel að það hefði mögulega verið í salnum þegar enginn annar var þar. Þá segir formaðurinn: „Ég tel að þessara gagna hafi bara alveg verið gætt á fullkominn hátt og hef heldur engar áhyggjur af því.“ Formaðurinn hafi engar áhyggjur af því. Hann trúði því að þetta væri bara örugglega allt í lagi og hugsanlega var það það, en er það nóg?

Um viðveru umboðsmanna við endurtalninguna, umboðsmenn gagnrýndu þetta mjög harðlega, sagði formaðurinn: „Þeir hafa ekkert um það að segja hvort endurtalning fer fram eða ekki. Þeir voru látnir vita af endurtalningunni og sumir voru viðstaddir hana.“ Þarna endurspeglast nokkuð sem ég persónulega hef orðið vör við í vinnu minni við kosningar. Nú hef ég unnið við ýmsar kosningar í gegnum tíðina, bæði í undirkjörstjórn og í hverfiskjörstjórn sem ber ábyrgð á framkvæmd kosninga á kjörstað. Ég hef orðið vör við að fólk skilur oft ekki tilganginn með ákveðnum reglum. Það áttar sig ekki á því hvers vegna það þarf að innsigla þetta en ekki eitthvað annað. Það áttar sig ekki á því hvers vegna umboðsmenn hafa með þetta að gera eða eitthvað annað og það sem meira er, og endurspeglast í þessum orðum formannsins sem ég var að lesa, átta sig ekki á hlutverki umboðsmanna framboða. Þegar það síðan kom í ljós að fleiri höfðu aðgang að þessum sal og að þessum gögnum þá er formaðurinn spurður hversu margir hefðu haft aðgang og hvort það væru einhver gögn sem lægju fyrir um það. Þá sagði hann: „Ég veit ekki hvað eru til margir lyklar að þessum inngöngum […] Það geta verið 50 lyklar að þessu plássi, ég veit það ekki.“ Þegar gengið er frekar á hann segir hann: „Það getur vel verið að starfsmenn hótelsins hafi haft aðgang að þessu rými.“ Þá er formaðurinn spurður: Fór einhver inn í salinn í ykkar fjarveru þegar enginn var annar í salnum? Þá segir formaðurinn: „Við vitum að svo var ekki.“ Þegar þjarmað var að honum segir hann: „Af því að ég veit það.“

Þetta eru sannarlega alvarleg ummæli, eins og ég nefndi áðan, og alvarleg vinnubrögð en sem að mínu mati lýsa ákveðnu sakleysi. Ég óttast að þetta sakleysi, þessi ákveðna einfeldni, endurspeglist í þessum nýju lögum að einhverju leyti. Þá vil ég nefna sem dæmi það sem hefur komið upp núna í fjölmiðlum varðandi innsigli, áhugaverð tilviljun að það skuli einmitt varða innsigli líka í lok talningar, en þá er það í raun lagt í hendur ráðherra að útfæra það. Það er önnur þróun sem ég tel varhugaverða sem ég tel líka hafa verið svolítið undanfarin ár og eiga við í víðara samhengi en það er önnur umræða, sem er að færa útfærslu allra „smáatriða“ í hendur ráðherra, í raun svona til einföldunar lagabálksins. Þarna gleymist munurinn á hlutverki Alþingis, af því að við treystum öllum og við erum öll góð og við höfum engar áhyggjur af því að neinn sé neinn slæman ásetning eða neitt, og hlutverki ráðherra og því hvers vegna hlutirnir eru í höndum þingsins til að byrja með. Það er vegna þess að þingið er þjóðkjörið og það eru ákveðnar ákvarðanir sem þingið þarf að taka og bera ábyrgð á. Án þess að gruna nokkurn ráðherra um græsku þá ætti okkur að vera ljóst, bara hugsandi um möguleikana í gegnum tíðina og sögu annarra þjóða, að ekki er skynsamlegt að setja jafn mikilvæga hluti og reglur um innsigli kjörgagna í hendurnar á framkvæmdarvaldinu. Að sjálfsögðu á þetta að vera skýrt. Þetta á að vera skýrt í lögunum. Þetta varðar réttindi borgaranna til að geta treyst því að kosningarnar séu réttar og séu áreiðanlegar.

Ég er bara rétt að byrja og tíminn er samt búinn, ég hélt að ég myndi ná upp í fimm mínútur með þessari ræðu minni en það er að verða korter. En það sem ég er að reyna að koma frá mér er að þessi lagabálkur og þær athugasemdir, þeir gallar á þessu sem við höfum verið að sjá núna á síðustu dögum, bara á síðustu vikum, eru þess eðlis að ég hef bara virkilega þungar áhyggjur af komandi kosningum. Ég hef áhyggjur af þessum lagabálki. Ég tel þá nefnd og það fólk sem kom að þessari vinnu hafa unnið gott starf, ég vil alls ekki gera lítið úr því, og mikil vinna var lögð í þetta þó að tímaramminn hafi verið stuttur. Það var gefinn allt of stuttur tími í þetta og ég held að það séu margir sammála því, jafnvel að framkvæmdarvaldið sé sammála því sömuleiðis. Það var allt of stuttur tími gefinn til að setja þessi lög. Nú eru að koma kosningar og við þurfum einhvern veginn að tryggja að þær geti farið fram með tryggum hætti og við höfum enn styttri tíma til stefnu. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Að sjálfsögðu styð ég þær lagfæringar sem við ætlum að gera með því frumvarpi sem er til umfjöllunar. Það hefur svo sem þegar verið ákveðið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd muni taka lögin til nánari skoðunar strax á næstu dögum, en ég vildi bara lýsa því yfir hér að ég hef áhyggjur (Forseti hringir.) af mörgum ástæðum og vona að við náum að bjarga þessu, alla vega þannig að næstu kosningar geti orðið farsælli en þær síðustu.