152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[16:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Ég verð samt að segja að mér þótti hún næstum því sársaukafull upprifjunin þegar hv. þingmaður var að lesa þessi „kvót“ í tengslum við klúðrið í Norðvesturkjördæmi en að sama skapi er mjög mikilvægt að við höldum þessu til haga. Það er alveg rétt að það er ekki einsdæmi hvað okkur hættir til og er tamt að líta svo á að við af öllum höfum einhvern veginn undanþágu. Við þurfum ekki að vera með hlutina mjög fast neglda niður vegna þess að við séum á einhvern hátt laus við það sem plagar flestar aðrar þjóðir, þ.e. tilhneiginguna til að gera eitthvað rangt ef færi gefst. Það er líklega fámennið sem gerir þetta að verkum. Ef við þekkjum ekki beinlínis þá manneskju sem um ræðir þá er stutt í að við þekkjum til fólks og þetta verður allt persónulegra. Og okkur er tamt að tala svo að komi einhver og bendi á leiðir til að koma í veg fyrir möguleika á misferli þá sé samasemmerki milli þess og ásökunar, sé sá hinn sami að ásaka tiltekna nafngreinda manneskju um nákvæmlega það misferli. Öll umræða um þessi mál keyrir einfaldlega út í skurð, m.a. vegna þessa. Hv. þingmaður notaði orðið sakleysi, að við værum saklaus, að við tryðum þessu ekki upp á fólk. En hér eins og annars staðar eru gríðarlegir hagsmunir undir hinni pólitísku nálgun á mál, ekki síst vegna þess að við erum auðlindadrifið hagkerfi og það skiptir bara máli fyrir gríðarlega marga hvaða ákvarðanir eru teknar hér, hvaða varnaglar eru slegnir, hvar girðingarnar liggja o.s.frv. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Af hverju ættum við ekki einhvers staðar úti í okkar samfélagi (Forseti hringir.) að vera að misbeita því að hér eru lög og reglur ekki eins og þær ættu að vera? (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður með sína reynslu af t.d. kosningaeftirliti að við sem þjóð höfum einhver önnur persónueinkenni en aðrar þjóðir sem gera að verkum (Forseti hringir.) að við þurfum ekki að huga að þessum málum? — Ég er með aðra spurningu en ég þarf að fá að koma aftur.