152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[16:48]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir spurningarnar. Já, ég held að þetta hugarfar orsakist ekki síst af fólksfæðinni eins og þingmaðurinn nefnir og ég ætla líka að leyfa mér að nota orðið meðvirkni í tengslum við nákvæmlega það sem þingmaðurinn nefndi. Við veigrum okkur við að saka fólk um eitthvað misjafnt eða slæman ásetning og ég held að það hafi líka spilað inn í og spili stundum inn í jafnvel bara rannsókn stjórnvalda og rannsókn lögreglu á málum, þ.e. feimni okkar við að taka ákveðna hluti alvarlega, að taka hreinlega inn í myndina möguleikana á brotum, ég ætla ekki endilega að segja slæmum ásetningi. Þetta spilar saman við hugarfarið sem er „þetta reddast“, við stöndum öll saman og erum öll í sama liði. Ég held að það sé þetta sem lætur okkur treysta hvert öðru sem er jákvætt á mjög margan hátt, gríðarlega jákvætt. Ég læsi ekki íbúðinni minni — nú vita það allir og ég þarf að fara að læsa — vegna þess að ég treysti fólki og ég held að það eigi við um marga. En það er þannig og það á sérstaklega við um alvarlega og mikilvæga hluti eins og lýðræðið að lýðræðinu þarf ekki bara að framfylgja. Það þarf líka að hafa þá ásýnd að því sé framfylgt. Til þess að við höldum áfram að bera þetta traust þurfum við líka að sýna að við séum traustsins verð. Það er gert með því að hafa hlutina skýra, með því hafa þá gagnsæja, með því að hafa reglurnar skýrar.

Mig langar að nefna dæmi sem mér hefur alltaf komið á óvart varðandi muninn á t.d. Íslandi og öðrum ríkjum. (Forseti hringir.) Á Íslandi erum við með kennitölu. Við erum með númer fyrir hvern einasta borgara. Í Frakklandi er ekki neitt svoleiðis, (Forseti hringir.) þú bara heitir eitthvað. Ef þú flytur þá ertu í rauninni búinn að skipta um kennitölu. Þetta er atriði (Forseti hringir.) þar sem okkar löggjöf, okkar reglur, er strangari og nákvæmari en í öðrum ríkjum þrátt fyrir allt þetta traust. Mér finnst þetta áhugavert.