152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:11]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir áhugaverða ræðu og það er ýmislegt sem ég myndi vilja taka undir sem kom fram í máli hans. Nýliðnir atburðir, ótengdir kosningalögum, hafa sýnt okkur það að hér á okkar litla saklausa Íslandi geta sannarlega gerst hlutir tengdir spillingu og ég ætla bara að segja slæmum vilja, sem ég held að mörg okkar hefðu aldrei getað trúað. Það sem ég er að vísa í hér eru ofsóknir á hendur blaðamönnum sem við höfum séð að undanförnu sem verða bara sífellt ótrúlegri eftir því sem meiri smáatriði koma í ljós. Þetta sýnir okkur það að jafnvel þó að við séum ósköp saklaus og treystum hvert öðru og allt þetta þá geta þessir hlutir gerst. Við þurfum að vera meðvituð um það.

Mig langar aðeins að nefna þetta ákvæði sem núna varð til þess að fellt var niður mál gegn einstaklingum sem báru ábyrgð á kosningu í Norðvesturkjördæmi, alþingiskosningunum í september, mál sem var nokkuð borðleggjandi þegar það var hafið. Það snerist um að þeim bar skylda til að innsigla gögnin eftir talningu og það var ekki gert. Í sjálfu sér ekki mikill vafi þar á og ekki umdeilt en sannarlega ákváðu þau að játa ekki sök að ráðgjöf sinna lögmanna sem við getum held ég öll sammælst um í dag að hafi verið rétt ákvörðun af þeirra hálfu, fyrir þau. Þarna endurspeglast mikilvægi þess að löggjöfin sé vönduð. Ég velti fyrir mér hvort jafnvel þó að þessi reglugerð hefði verið sett, sem er ekki fyrir hendi enn þá og skapar ekki lagagrundvöll til að refsa fólkinu eins og staðan er, hvort það hefði yfir höfuð verið möguleiki að refsa þeim þegar engin lagaheimild var.

En þá að spurningunni sem mig langar til að beina til þingmannsins. (Forseti hringir.) Hann nefndi að hann hefði verið í kosningaeftirliti í Rússlandi. Mér þykir það ákaflega áhugavert. Mig langar til að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann hvort það hafi verið eitthvað þar sem honum kom á óvart sem hann myndi telja að yrði aldrei vandamál á Íslandi.