152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:24]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur kærlega fyrir fyrirspurnina og innleggið inn í þetta allt saman. Jú, þetta var eitt af því sem var farið yfir á fundi nefndarinnar í morgun, þ.e. hvort við ættum að setja orðið innsigli inn í tiltekna lagagrein til að búa þá til einhvers konar girðingu, að tryggja að allt færi samkvæmt settum reglum eins og við viljum að kosningar fari. Eftir svolitla umræðu og samtal við gesti var það metið svo að það væri kannski ekki nauðsyn á því að gera neinar breytingar að þessu sinni. En alveg eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir kom inn á hér áðan í sinni ræðu og fór miklu betur yfir í þá sálma heldur en ég gerði áðan er þetta auðvitað spurning um það hvað á heima í lögum og hvað á að vera í reglugerð. Ég skildi svörin sem við fengum þannig að til að einfalda löggjöfina hafi það vísvitandi verið gert þannig að vera meira með réttindin sjálf í lögunum en framkvæmdina, praktísku atriðin, í reglugerðinni.

Þegar við erum að tala um hluti eins og meðferð kjörgagna, þegar við erum að tala um hluti eins og innsigli, hvað þú gerir við kjörgögnin, hvernig þú gengur frá þeim, hvernig umhirðan öll er og allt þetta og eftir reynsluna af því sem gerðist í Norðvesturkjördæmi eftir síðustu kosningar þá veltir maður því fyrir sér hvort þeir hlutir eigi frekar heima í lögum en í reglugerð. Mér finnst þetta vera mjög mikið umhugsunarefni. Ég ætla ekkert að skera úr um það hvað sjálfan mig varðar. Ég vil skoða þetta sjálfur mjög vandlega með félögum mínum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Það sem hv. þingmaður er að hreyfa við er feikilega mikilvægur punktur og við megum ekki hrapa að neinum ályktunum eða gefa okkur að það sé sjálfgefið að þetta eigi heima í reglugerð (Forseti hringir.) frekar en í lögunum sjálfum, af því að við viljum hafa lögin einföld og skiljanlegri ef það síðan á einhvern hátt (Forseti hringir.) gerir það að verkum að það verður eitthvert klúður síðan í framkvæmdinni.