152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og vil segja að ég hef áhyggjur af þessu viðhorfi í nefndinni. Almenningur getur nokkuð örugglega sótt sín réttindi og barist fyrir þeim og það er ákveðin framkvæmd varðandi hverjir mega kjósa og þess háttar, sem eru þessi réttindi sem við erum að tala um, og hvernig það eigi að fara fram. En það er einmitt framkvæmdin sem virðist vera veikleikinn hjá okkur í lýðræðinu. Það eru komin fjölmörg dæmi, og þau urðu alltaf fleiri og fleiri þegar þetta Norðvesturkjördæmisfíaskó var í umræðunni, um það að framkvæmdin sé ófullnægjandi. Og ófullnægjandi vegna þess að svona hefur þetta alltaf verið. Það var mjög áhugavert að heyra af fundum nefndarinnar, og ég tók eftir því í umræðu í þingsal, að það virtist vera sem á sumum stöðum væri formið, framkvæmdin, einmitt í alveg ofboðslega föstum skorðum og væri mjög niðurnjörvað á meðan annars staðar, eins og blasir t.d. við úr Norðvesturkjördæmi, hafi framkvæmdin verið bara einhvern veginn. Þá veltir maður fyrir sér: Er ekki hættan einmitt þarna? Nú hef ég líka verið í kosningaeftirliti, ég var í Hvíta-Rússlandi, og þar var einmitt framkvæmd kosninganna, þegar kjósandi kemur og greiðir atkvæði, þar var allt í lagi, en þegar kom að því að telja atkvæði, stemma af, passa að allt væri rétt, að það væru jafn margir atkvæðaseðlar og greidd atkvæði o.s.frv., þá fór allt til fjandans. Þá segir maður: Á ekki einmitt þar að vera algjörlega skýr lagabókstafur (Forseti hringir.) og það má ekki sjúska neitt? Ég bara spyr: Af hverju erum við ekki að bæta þessu við?