152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:29]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur kærlega fyrir og ég er í sjálfu sér ekki ósammála þessu. Ég hugsaði þetta á fundinum og við ræddum þetta. Ég spurði sérstaklega um þetta. Það var nefnt t.d. að hægt væri að bæta orðinu innsigli við í 99. gr., þar sem segir:

„Ráðherra setur reglugerð, að fenginni tillögu landskjörstjórnar, m.a. um framkvæmd talningar við almennar kosningar, meðferð ágreiningsseðla, meðhöndlun kjörgagna og kjörskráa og um frágang að lokinni talningu, þ.m.t. um eyðingu kjörseðla og annarra gagna.“

Það að setja orðið innsigli þarna inn myndi láta okkur öllum líða aðeins betur. En það var metið að ekki væri þörf á því og það væri kannski ekki mikil hætta á, með almennilegri reglugerð, að þetta yrði að einhverju atriði í næstu kosningum. Ég held að við séum öll á þeirri blaðsíðu að vilja heitt og innilega að hlutirnir endurtaki sig ekki. Ég leyfði mér bara svolítið að setja traust mitt á þá sérfræðinga sem voru þarna fyrir nefndinni og töldu að kannski væri ekki ástæða til að ganga alla leið, a.m.k. hér og nú. En nefndin er síðan að fara að skoða þetta áfram og ég velti því fyrir mér, þegar menn eru að skipta þessu svona upp, annars vegar einhverja praktík sem á að þá að vera í reglugerð og hitt síðan sem snýst kannski um ákveðin réttindi og annað slíkt, að auðvitað er það partur af réttindum okkar að rétt sé farið með allt í framhaldinu.

Varðandi það síðan að veikleikar séu í framkvæmdinni þá var það auðvitað reyndin í Norðvesturkjördæmi en það eru líka veikleikar í löggjöfinni hjá okkur og það eru svo sannarlega veikleikar í stjórnarskránni hjá okkur. Þess vegna vil ég bara undirstrika það að þegar við erum að tala um lýðræðislega hluti þá eigum við aldrei að flýta okkur um of. Við eigum að vanda til verka og við megum ekki endalaust vera að plástra. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni: þegar við erum alltaf að plástra (Forseti hringir.) framkvæmd kosninga dregur það eitt og sér úr trausti á ferlinu. (Forseti hringir.) Það yrði lagabálkurinn sem endalaust væri verið að staga og stoppa í. Það er ekki traustvekjandi þannig að við verðum einhvern veginn að ná að koma hlutum betur fyrir. — Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir skoðanaskiptin.