152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:47]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og þessi sjónarmið. Mér fannst á sínum tíma mjög mikilvægt að fá atkvæðagreiðslu um þetta mál. Þar var ég ekki síst með í huga, og ég ætla að vera alveg heiðarleg með það, afstöðu einstakra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem tala um það að hér sé um mannréttindamál að ræða en það er kannski aldrei rétti tíminn til að leiðrétta þetta óréttlæti. Þingmenn fengju þá bara tækifæri til þess að sýna vilja sinn í verki með atkvæði sínu. Svo er það reyndar auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni að í sögulegu samhengi eru það ákveðnir flokkar, þeir flokkar tveir sem hún nefnir, sem hafa notið góðs af þessu ójafnvægi. Það mætti kannski segja í samhengi við slagorð t.d. Framsóknarflokksins, hvort það sé ekki bara best að kjósa Framsókn, að það þarf ekki einu sinni að kjósa Framsókn. Flokkurinn fær samt þingmennina. En jú, mér þætti koma vel til greina að gera það. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að þetta mál sé til umræðu og sé í umræðunni núna í tengslum við þessi mál og að við náum að draga fram vilja þingsins og ríkisstjórnarinnar í verki. Ég ætla hins vegar að deila því með hv. þingmanni að ég tel yfirgnæfandi líkur á því að atkvæðagreiðslan fari með nákvæmlega sama hætti og síðast en það ætti að vera okkur öllum að meinalausu að keyra hana í gang öðru sinni.