152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að rifja upp þessa breytingartillögu sem var lögð fram til að jafna atkvæðavægi fyrir ári. Mig langar að bæta við að það voru ekki bara stjórnarflokkarnir þrír sem stóðu gegn henni heldur nutu þeir fulltingis Miðflokksins. Eins og svo oft vildi verða á síðasta kjörtímabili þegar horfði til einhverra framfara í breytingartillögum eða þingmálum hér í sal þá var aukinn meiri hluti ríkisstjórnar að viðbættum Miðflokki sem stóð þar í vegi.

Ég skal viðurkenna að við sátum saman í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ég og hv. þingmaður, á síðasta vetri og ég vil meina að nefndin hafi unnið gott starf í þeim breytingum sem voru gerðar vegna þess að það viðmið sem var sett var að við ættum alltaf að stíga skref í áttina að því að kjósandi ætti auðveldara með að tjá skoðun sína og vilja. Það var hið heilagasta markmið sem við stefndum að með eiginlega öllum breytingartillögum. Þess vegna finnst mér næstum grátlegt að hugsa til þess að breytingartillaga sem snerist um að vilji kjósenda, eins og hann birtist á landsvísu, endurspeglaðist í hlutfalli þingmanna hér í sal hafi verið felld vegna þess að hún þótti of pólitísk en við ættum helst að vera að skoða tæknilegar lagfæringar. Svo kom í ljós þegar fólk fór að leika sér að því að reikna upp úr skoðanakönnunum í aðdraganda kosninga að hið tæknilega í þessu samhengi var bara rammpólitískt vegna þess að í ýmsum könnunum voru flokkar að græða einn og jafnvel tvo aukamenn á þessu kerfi.