152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:02]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í ræðu hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur og setja málið í sögulegt samhengi og þá sérstaklega með hliðsjón af arfleifð okkar jafnaðarmanna og Alþýðuflokksins gamla. Áðan fjallaði ég aðeins um stórmerkilegt frumvarp sem Héðinn Valdimarsson, forystumaður okkar, flutti árið 1927. Héðinn gerði sér grein fyrir því að kosningarréttur er mannréttindamál og hann gerði engan sérstakan greinarmun á útilokun frá kosningarrétti og misvægi atkvæða. Hann leit svo á að hvort tveggja væri brot á þeim mannréttindahugmyndum sem lýðræðisleg stjórnskipun byggist á. Auðvitað eru fleiri en ein leið fær til að tryggja jafnt atkvæðavægi. Sú einfaldasta, en kannski líka sú umdeildasta, er að gera landið beinlínis að einu kjördæmi. Þetta er það sem Jón Baldvinsson, fyrsti þingmaður Alþýðuflokksins, lagði til þegar hann var fulltrúi flokksins í milliþinganefndinni um kjördæmamálið sem starfaði frá ágúst 1931 til febrúar 1932. — Ég ætla að biðja um þögn í salinn. Jón taldi að með því að gera landið allt að einu kjördæmi væri viðurkennt á borði jafnrétti kjósenda til að hafa áhrif á skipun Alþingis hvar á landinu sem þeir væru búsettir.

„Þá fellur það niður, sem nú er algengast, að alþingismenn telji sig fulltrúa fyrir tiltekinn fjölda ferhyrningsmílna af meira og minna hrjóstrugu landi, jöklum og eyðisöndum, þá verða þeir fulltrúar þjóðarinnar, fulltrúar fólksins, sem í landinu býr.“

Þetta skrifaði Jón Baldvinsson. Alþýðuflokkurinn barðist ötullega fyrir því að landið yrði gert að einu kjördæmi allt til ársins 1959 þegar flokkurinn í raun féllst á núverandi kjördæmakerfi sem ákveðna sáttaleið. Sú sátt miðaði samt alltaf að því að ná því fram að kjörfylgi og þingstyrkur fylgdust að. Það var alltaf markmiðið. Með lagabreytingum 1987 var unnið enn frekar gegn misvægi atkvæða og síðan 1999 þegar gerðar voru breytingar á stjórnarskrá getur Alþingi mjög auðveldlega fjölgað jöfnunarsætum með einfaldri breytingu á kosningalögum, ég held að það sé í 8. gr. núgildandi kosningalaga. Eins og hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir benti á áðan kemur mjög skýrt fram í stjórnarskrá að jöfnunarsætum skal úthlutað til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þessi 8. gr. kosningalaga sem ég minntist á rétt áðan dugði til þess í öllum kosningum á tímabilinu 1987–2009 að tryggja fullan jöfnuð milli flokka. Þetta hefur Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor bent á. En í síðustu fernum alþingiskosningum hefur í rauninni verið gengið gegn þessu skýra markmiði stjórnarskrár. Í öllum tilvikum hafa einhverjir flokkar fengið fleiri þingmenn en þeim bar. Þetta er vegna of fárra jöfnunarsæta svo að þarna er enn þá mjög alvarleg skekkja til staðar sem er mjög mikilvægt að leiðrétta.

Hér hefur verið rætt um breytingartillögu sem var lögð fram á síðasta kjörtímabili og ég held að það sé algjörlega rakið mál, ef það næst ekki núna, að við látum reyna á það aftur í næstu atrennu að breytingum á kosningalögum að fá það skýrt fram hvar þingmenn standa í þessum efnum.