152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:07]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vildi aðeins, af því að umræðan þróaðist svolítið út í þessa skekkju sem birtist okkur aftur og aftur eftir kosningar hér á Íslandi, leggja orð í belg. Ég kom inn á þetta í minni fyrri ræðu en í framhaldi af því sem þau hafa bæði komið inn á, hv. þingmenn Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Jóhann Páll Jóhannsson, þá langar mig aðeins að leggja orð í belg.

Þetta er náttúrlega nákvæmlega þannig að árin 2013 og 2017 fékk Framsókn einu þingsæti of mikið miðað við það sem landsfylgi flokksins stóð undir — og nú er ég að vitna beint í grein sem Þorkell Helgason stærðfræðingur hefur skrifað. Það veit nú enginn meira um þetta en hann. Hann bendir líka á að Sjálfstæðisflokkurinn sem tapaði í síðustu kosningum á þessari skekkju fékk aukamenn árið 2016. Sem sagt: Sjálfstæðisflokkurinn á að vera með einum manni meira núna og Framsóknarflokkurinn einum minna.

Ég ætlaði að nefna þetta í samhengi við kosningarnar 2016 vegna þess að þá verður sú skekkja að Sjálfstæðisflokkurinn fær einum manni meira en honum ber. Ef þessu yrði skipt jafnt myndum við taka atkvæði landsmanna og deila þeim þannig jafnt niður að það myndi endurspeglast í þingstyrk flokkanna, sem gerist ekki hér kosningar eftir kosningar. Á þessum eina manni sem í raun og veru átti ekki að fara til Sjálfstæðisflokksins var hægt að mynda ríkisstjórn 2016, með eins manns meiri hluta. Þannig að það er ekki eins og þessar skekkjur séu bara eitthvert lítilræði. Þetta getur raunverulega haft áhrif á það hvers konar ríkisstjórn situr í landinu. Í þessu tilfelli tók Viðreisn þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum þannig að Viðreisn, minn flokkur, sat í þessari ríkisstjórn. Það breytir auðvitað engu um ranglætið í þessu.

Það sem ég er kannski að reyna að undirstrika er að það er alveg nákvæmlega sama í hvaða flokki við erum, hvaðan við komum, hvaða hugsjónir við höfum í pólitík, hvert við viljum stefna, hvernig við sjáum Ísland fyrir okkur í framtíðinni, þá erum við öll hér í þessum sal — það er nú bara svo merkilegt — sammála um það að flokkarnir eigi að hafa þingstyrk í réttu hlutfalli við það atkvæðamagn sem þeir fá upp úr kjörkössum að loknum kosningum. Það að þetta hafi síðan þráfaldlega farið öðruvísi í undanförnum kosningum og verið reynt að leiðrétta en ekki verið fallist á það segir manni að orðum fylgja ekki efndir í öllu tilviki.

Ég ætli bara að halda því hér til haga að þegar við erum með einhverjum hætti að ræða kosningar, lýðræði eða framkvæmd kosningalaga þá er mjög brýnt að halda þessum punkti á lofti vegna þess að þetta er ótrúlega mikið sanngirnismál sem getur skipt mjög miklu máli fyrir þróun lýðræðis í landinu. Og ég árétta líka það sem ég nefndi í minni fyrri ræðu að ég er hjartanlega ósammála því að það eigi að vera misjafnt vægi atkvæða eftir landshlutum, þ.e. að við kjósendur sitjum ekki öll við sama borð og við þekkjum það allt saman, en ég skil hvaðan menn koma sem halda því fram að það sé réttlætanlegt. Þeir eru þá að hafa áhyggjur af einhverjum byggðasjónarmiðum og að ákveðnir landshlutar verði mögulega út undan. Það eru því bara ákveðin sanngirnissjónarmið í þeirri skekkju, við getum orðað það þannig, þótt ég sé ekki sammála þeim. En í hinu tilfellinu, þar sem við erum að tala um flokkana, eru nákvæmlega engin rök. Það er bara ranglátt, alveg frá A til Ö. Þegar við erum núna mitt í þessari umræðu að velta fyrir okkur hvert við ætlum að halda áfram úr þessu öllu saman þá er þetta eitthvað sem mér finnst að við eigum að hafa í huga. Þú breytir ekki minni skoðun í því, jafnvel þó að minn flokkur hafi á sínum tíma myndað ríkisstjórn út frá þessari skekkju. Við verðum að laga þetta. Við verðum að koma sanngirninni betur til skila þegar við erum að huga að þessum hlutum. Það var bara það sem ég vildi halda á lofti hér í minni seinni ræðu hvað varðar þetta mál.