152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræða hér þessa breytingartillögu um jöfnuð á milli annars vegar flokka og hins vegar kjördæma. Hvað er það núna, fjórar alþingiskosningar í röð þar sem ekki hefur náðst jöfnuður á milli flokka? Mér heyrist við hv. þingmaður vera á sama stað. Ég skil rökin sem fólk heldur fram fyrir því að ekki sé jafnt atkvæðavægi milli kjördæma. Ég held hins vegar að lausnin á því hvernig við jöfnum aðstöðumun á milli kjördæma sé ekki fólgin í því að hér séu fleiri raddir úr fámennari kjördæmum en sem nemur hlutfallslegum íbúafjölda þeirra heldur að við færum þjónustu út í kjördæmin og búum bara betur að þeim. Aukinn kosningarréttur er ekki lausn á þeim vanda sem ég er bara sammála fólki um að sé til staðar. Hins vegar er mér fyrirmunað að skilja hvernig nokkrum getur dottið annað í hug en að fjöldi þingmanna hvers flokks eigi að vera sem næstur þeim atkvæðafjölda sem flokkurinn fékk í kosningunum. Það kannski skiptir ekki öllu varðandi stjórn sem átti hvort eð er að endurmynda eftir þessar kosningar. Skekkjan þetta árið snerist um það að einn Framsóknarmaður fékkst á kostnað Sjálfstæðismanns. Þetta voru því hrókeringar innan stjórnarliðsins en ekki á milli blokka stjórnar og stjórnarandstöðu.

En ég er kannski velta upp sömu spurningu og mér heyrðist hv. þm. Helga Vala Helgadóttir vera með hér fyrr í dag: (Forseti hringir.) Telur þingmaðurinn að landslagið hér í sal sé eitthvað annað í dag (Forseti hringir.) en það var tæpu ári þegar tillaga þess efnis að jafna þetta var felld? (Forseti hringir.) Eru flokkarnir eitthvað betur innréttaðir í dag?