152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:14]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni kærlega fyrir andsvarið og spurninguna og vangavelturnar allar sem koma fram í þessari mikilvægu umræðu. Já, ég hef þá trú að landslagið sé öðruvísi. Ég er að leyfa mér að vona að umræðan að undanförnu — og þá er ég að tala um bara undanfarna mánuði, umræðuna í framhaldi af kosningum, þessar endalausu ábendingar sem fram hafa komið um þetta og það að menn séu settir í þá stöðu að þurfa að taka raunverulega afstöðu hér í þessum sal — muni kannski hreyfa þessu í rétta átt. Þannig að mér finnst full ástæða til þess að á þetta verði látið reyna.

Varðandi misvægi atkvæða milli kjördæma þá kýs ég að líta þannig á að við séum auðvitað þingmenn alls landsins. Ég er úr Suðvesturkjördæmi, úr Garðabænum, bý reyndar í Reykjavík, en mér finnst ég ekkert skuldbundnari þessum svæðum þannig lagað séð þegar kemur að atkvæðagreiðslu í þinginu. Ég meina, ég á ættir að rekja út á land. Ég á ættir að rekja vestur í Ísafjarðardjúp og ég á ættir að rekja upp á Skaga. Við eigum öll einhverjar tengingar út á land og rætur okkar liggja mjög oft þar og þetta eru svæði sem okkur þykir vænt um. Ég vil að það sé byggð um allt land. Ég vil að það séu öflugar samgöngur út um allt land og að atvinnulíf þrífist þar og annað. Ég held að allar áhyggjur af því að jöfnun á vægi atkvæða milli kjördæma muni hafa í för með sér einhver slæm tíðindi eða ekki vera landsbyggðinni til hagsbóta séu of miklar. Mér finnst að hin lýðræðislega staða, jafnræði fólks þegar kemur að kosningum og lýðræði, sé algjört lykilatriði í þessu og skipti meira máli en hitt (Forseti hringir.) því að öll erum við þingmenn alls landsins.