152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:19]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni frá Hjarðarbóli í Ölfusi kærlega fyrir fína ræðu og góða punkta inn í þetta allt saman. Hann hreyfði hér við mjög mikilvægu atriði sem er einmitt það að nefna Vestfirðina í Norðvesturkjördæmi þar sem þingmönnum mun fækka við næstu kosningar. Einn færist þaðan yfir til Suðvesturkjördæmis. Ég vona að mig sé ekki að misminna. Nei, það er rétt hjá mér. Það hefur verið þetta misvægi. Engu að síður, eins og hv. þingmaður nefndi, ef einhver landshluti hefur átt erfitt uppdráttar og upplifað sig kannski pínulítið afskiptan og annað eru það einmitt Vestfirðir. Ég held að þarna hafi þessi sterku rök komið nokkuð vel í gegn um að misvægið sem við búum við í dag þjónar ekki sínum tilgangi. Það þarf aðrar og markvissari aðgerðir en það. Kannski hefur þetta gert það að verkum að við höfum falið okkur of mikið á bak við þetta skipulag sem einhvers konar syndaaflausn í því að hafa ekki sinnt ákveðnum svæðum nægilega mikið. Ég veit að þetta er mjög viðkvæmt mál.

Við höfum auðvitað séð það að á Austfjörðum hafa menn saknað þess að það vanti kjörna fulltrúa frá því svæði á þingi eða að þeir mættu að ósekju vera fleiri. Ég skil þetta allt saman. Jafnt vægi atkvæða, eða a.m.k. jafnara vægi atkvæða, leggur þá skyldu á herðar okkar, sem við eigum auðvitað að hafa jafnan í huga hér í þinginu, að við erum þingmenn fyrir alla landsmenn, það er okkar skylda að sinna landinu öllu, og að allar ákvarðanir sem við tökum í þessum sal séu til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Hvort það eigi að greiða atkvæði um þetta í einu eða tvennu lagi er útfærsluatriði en það er svo sannarlega brýnt miðað við umræðuna hér í dag að koma þessu aftur á dagskrá þingsins.